Ingi Þór Steinþórsson og lærisveinar hans úr Stykkishólmi eru komnir í úrslitaleik Subwaybikarsins eftir sannfærandi 64-90 sigur á Keflavík í undanúrslitum keppninnar. Á morgun mætast svo Grindavík og ÍR og þá kemur í ljós hvaða lið mætir Snæfell í úrslitaleik bikarsins. Jón Ólafur Jónsson var heitur liði Hólmara í dag með 23 stig en hann setti niður sex fyrstu þriggja stiga skotin sín í leiknum. Að sama skapi var þriggja stiga nýting Keflavíkur afleit en heimamenn settu aðeins niður tvo af 24 þristum sínum í leiknum og voru því aðeins með 8,3% nýtingu.
Keflvíkingar voru líflegri fyrstu mínúturnar og komust í 12-6 þegar Hörður Axel skoraði og fékk villu að auki. Jón N. Hafsteinsson fékk skömmu síðar að kynnast því að það er ekki tekið út með sældinni að vera í beinni útsendingu. Jón stal boltanum og brunaði upp völlinn en Hólmarar brutu á honum og fyrir vikið rann Jón á þrífót myndatökumanns RÚV og kenndi sér töluverðra eymsla í bakinu og hélt af velli. Þröstur Leó Jóhannsson kom inn í stað Jóns og setti niður bæði vítin og staðan 14-8. Emil Jóhannsson og Jón Ólafur Jónsson neituðu að láta Keflavík valta yfir sig og með góðum rispum tókst Snæfell að jafna metin í 21-21 en það gerði Sveinn Davíðsson með stökkskoti í Keflavíkurteignum þegar 5 sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta.
Keflvíkingar gerðu fyrstu stig annars leikhluta og héldu gestum sínum stigalausum í rúmar tvær mínútur en þá tók Ingi Þór leikhlé. Allt annað Snæfellslið kom út úr leikhléinu og gerði út um þessa viðureign á næstu átta mínútunum. Hlynur Bæringsson var ekki að finna sóknartaktinn sinn og bauð upp á laka skotnýtingu í teignum en þess í stað færðu Hólmarar sig utar með Jón Ólaf í broddi fylkingar og hreinlega rassskelltu ráðalausa Keflvíkinga.
Martins Berkis stimplaði sig rækilega inn í lið Snæfells með þriggja stiga körfu en hann setti fjórar slíkar í dag í jafn mörgum tilraunum. Vörn Snæfells var að sama skapi glæsileg og gerðu gestirnir 19 stig í röð án þess að Keflavík næði að svara og breyttu stöðunni í 27-46 en Keflvíkingar gerðu síðustu stig fyrri hálfleiks og staðan því í hálfleik 29-46 Snæfell í vil.
Jón Ólafur Jónsson var með 13 stig í liði Snæfells í hálfleik en Hörður Axel Vilhjálmsson var með 9 stig í liði Keflavíkur. Heimamenn voru ískaldir í skotum sínum og voru t.d. aðeins með 6,7% þriggja stiga nýtingu í hálfleik.
Urule Igbavboa kom fljótt inn á í liði Keflavíkur í síðari hálfleik og var ekki lengi að koma sér á blað en í hans fyrstu snertingu reif hann niður sóknarfrákst og skoraði og minnkaði muninn í 36-52. Heimamenn virtust eitthvað ætla að rétta hlut sinn í þriðja leikhluta sem þeir og gerðu enda vann Keflavík leikhlutann 19-17 og staðan 48-63 fyrir lokasprettinn.
Páll Fannar Helgason kom Snæfell í 48-66 með þriggja stiga körfu í upphafi fjórða leikhluta og þar benti allt til þess að Keflavík myndi ekki ná að gera almennilegan leik úr stöðunni sem varð raunin og Hólmarar skelltu Keflvíkingum 64-90.
Jón Ólafur Jónsson var besti maður vallarins í dag með 23 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta og eitt varið skot. Hlynur Bæringsson var þéttur í teignum og reif niður 23 fráköst ásamt því að gefa 5 stoðsendingar og skora 6 stig. Þá lék Hlynur fantagóðavörn á Sigurð Þorsteinsson sem hafði sig ekki mikið í frammi í Keflavíkurliðinu. Fimm leikmenn Snæfellsliðsins gerðu 10 stig eða meira í leiknum svo Ingi Þór þjálfari var að fá veglegt framlag úr öllum áttum.
Í liði Keflavíkur var Hörður Axel Vilhjálmsson með 20 stig og 5 fráköst en aðrir voru einfaldlega fjarri sínu besta. Þá var varnarleikur Keflavíkur slakur á stórum köflum og skyttur á borð við Jón Ólaf Jónsson fengu allt of mikinn tíma til þess að athafna sig.
Aðeins um 300 áhorfendur sóttu leikinn sem sýndur var í beinni útsendingu á RÚV og er það furðulegt að stuðningsmenn liðanna skuli ekki hafa mætt betur þegar öllum er ljóst hvað hafi verið í húfi!
Byrjunarlið Keflavíkur: Gunnar Einarsson, Jón N. Hafsteinsson, Draelon Burns, Sigurður Þorsteinsson og Hörður Axel Vilhjálmsson.
Byrjunarlið Snæfells: Hlynur Bæringsson, Sigurður Þorvaldsson, Sean Burton, Jón Ó. Jónsson og Emil Jóhannsson.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson: Dæmdu vel.



