spot_img
HomeFréttirSnæfell í bikarúrslit með sterkum sigri í Ljónagryfjunni(Umfjöllun)

Snæfell í bikarúrslit með sterkum sigri í Ljónagryfjunni(Umfjöllun)

20:51

{mosimage}
(Snæfellingar hafa ástæðu til að fagna)

Baráttuglaðir Snæfellingar eru komnir í úrslit Lýsingarbikars karla í körfuknattleik eftir 77-94 sigur á Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni. Gestirnir tóku frumkvæðið snemma leiks og létu forystuna aldrei af hendi. Þeir Justin Shouse og Hlynur Bæringsson léku fantavel í liði gestanna en hjá Njarðvíkingum var Damon Bailey stigahæstur með 28 stig. Á morgun ræðst það svo hverjir munu mæta Snæfell í bikarúrslitum þegar Skallagrímur tekur á móti Fjölni í Borgarnesi. Frá þessu er greint á www.vf.is.

Góð barátta var strax frá upphafi einnkenni leiksins en í stöðunni 6-7 Snæfell í vil tóku gestirnir á rás og komust í 8-16 með þriggja stiga körfu frá miðherjanum Hlyn Bæringssyni. Hlynur var einnig að frákasta vel og stefndi allt í stórleik hjá honum. Friðrik Stefánsson fékk snemma í 1. leikhluta sína aðra villu og hélt á bekkinn til að kæla sig. Snæfellingar fóru í svæðisvörn sem Njarðvíkingum reyndist þungbær. Leikhlutanum lauk í stöðunni 14-21 fyrir Snæfell og máttu heimamenn þakka fyrir að munurinn væri ekki meiri en Njarðvíkingar tóku fína rispu undir lok leikhlutans.

Hlynur Bæringsson opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og Snæfell komnir 10 stigum yfir, 14-24. Hörður Axel kom með fína baráttu inn í Njarðvíkurliðið og leiddi áhlaup Njarðvíkinga sem minnkuðu muninn í 22-25 en þegar líða tók á leikhlutann fjarlægðust gestirnir að nýju og komust í 28-37 og mikill hiti kominn í leikinn en heimamönnum fannst verulega á sig hallað í dómgæslunni.

Með öflugum lokaspretti í fyrri hálfleik náðu gestirnir úr Stykkishólmi 15 stiga forskoti 30-45 og heimamenn á velli jafnt og í stúkunni mjög argir yfir dómgæslunni. Á báða bóga var hún miður góð í fyrri hálfleik þar sem mikið var flautað. Justin Shouse toppaði fyrri hálfleik Snæfellinga með því að skora þriggja stiga flautukörfu og því fóru gestirnir með blússandi sjálfstraust inn í hálfleik. Hlynur Bæringsson var stigahæstur í hálfleik með 16 stig og 12 fráksöt hjá Snæfell en hjá Njarðvík var Brenton með 12 stig.

{mosimage}
(Damon Bailey var stigahæstur í sínu liði)

Óhætt er að segja að Snæfell hafi gert út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks er þeir gerðu 7 fyrstu stigin og staðan orðin 30-52 gestunum í vil. Síðari hálfleikurinn var í betri umsjón hjá dómurum leiksins þeim Rögnvaldi Hreiðarssyni og Jóni Guðmundssyni sem engu að síður voru gjarnir á að flauta og setti það sinn svip á leikinn.

Sama hvað Njarðvíkingar reyndu þá var það erfitt að finna glufur á vörn Snæfellinga sem voru ekkert feimnir við að berja á heimamönnum. Þeir liggur við fögnuðu hverri villu og héldu áfram að þétta sinn varnarleik. Verulega var fokið í Njarðvíkinga undir lok þriðja leikhluta og lykilmenn á borð við Brenton Birmingham og Hörð Axel Vilhjálmsson í bullandi villuvandræðum fyrir fremur litlar sakir.

Snæfellingar héldu Njarðvíkingum fjarri og leiddu 53-73 að loknum þriðja leikhluta og fátt sem benti til þess að Njarðvíkingar myndu rétta sinn hlut.

Strax í upphafi fjórða leikhluta settu Snæfellingar niður þriggja stiga körfu og staðan 53-76 og þarna virtist leikurinn endanlega búinn og bikarævintýri Njarðvíkur úti. Það reyndist satt og með Justin Shouse og Hlyn Bæringsson í broddi fylkingar sigldu Snæfellingar í átt að 77-94 útisigri í Ljónagryfjunni.

„Þeir voru meira tilbúnir og vildu þetta meira en við. Þetta var sérstaklega svekkjandi þar sem við höfum staðið okkur vel í þessum stóru leikjum undanfarið. Þeir voru bara betri en við í dag á flestum sviðum og þetta var bara hræðilega svekkjandi,“ sagði Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkinga í samtali við Víkurfréttir í leikslok.

Eins og fyrr greinir var Damon Bailey með 28 stig í liði Njarðvíkur en honum næstur kom Brenton Birmingham með 16 stig. Justin Shouse gerði 27 stig fyrir Snæfell, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar en Hlynur Bæringsson gerði 19 stig, tók 19 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Myndir og umfjöllun: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -