Stórleikur 16-liða úrslita Poweradebikars karla fóru fram í Ásgarði, Garðabæ í dag þegar Stjörnumenn tóku á móti Snæfelli. Bæði lið hafa upplifað það að vinna bikarkeppnina, Hólmarar nú síðast árið 2010 en Garðbæingar í fyrsta og eina skiptið árið 2009.
Leikurinn byrjaði ekki mjög fjörlega. Hvorugt liðið náði almennilegri forystu og var lítið skorað. Mikil barátta einkenndi leik beggja liða, en oft fengu liðin að komast upp með full mikið undir körfunni. Staðan að loknum einum leikhluta var 23-19 fyrir heimamenn, í jöfnum leik.
Annar leikhluti fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtilegan sóknarleik, þá sérstaklega ekki hjá heimamönnum. Stjarnan skoraði ekki stig fyrstu fimm og hálfa mínútu annars leikhluta, en höfðu gestirnir þá þegar skorað 7 stig. Sóknartilburðir liðanna héldu áfram að vera hlægilegir út hálfleikinn, en staðan í hálfleik var 30-33 gestunum í vil, sem þýðir að Stjörnumenn skoruðu einungis 7 stig í leikhlutanum, en til samanburðar að þá skoruðu Justin Shouse og Keith Cothran samtals 18 stig í fyrsta leikhluta.
Erfiðleikar heimamanna héldu áfram í seinni hálfleik. Það var engu nær en að ósýnilegur maður hefði sest á körfuhring Snæfells, svo skelfileg var skotnýting Stjörnunnar. Þó sóknarleikur Hólmara hafi ekki verið til að hrópa húrra yfir, að þá var hann skömminni skárri en Garðbæinga, og Snæfell tók að sigla fram úr. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 44-54, gestunum í vil, en Stjarnan skoraði því tveimur stigum meira í fyrsta leikhluta en í næstu tveimur til samans!
Sama var uppi á teningnum í lokafjórðungnum. Stjörnumenn hittu ekki til að bjarga lífi sínu en gestirnir, með Pálma Sigurgeirsson fremstan í flokki, fóru að setja nokkur skot ofan í. Þrátt fyrir ágætis skorpu heimamanna í lok leiksins fögnuðu leikmenn Snæfells nokkuð öruggum sigri í lokin, lokastaðan 68-73, Hólmurum í vil.
Pálmi Sigurgeirsson fór fyrir liði Snæfells með 23 stig og Quincy Hankins-Cole skoraði 15 stig og tók auk þess 15 fráköst. Hjá Stjörnumönnum var Keith Cothran með 19 stig og Justin Shouse skoraði 17.
Snæfell verður því í skálinni góðu þegar dregið verður í 8-liða úrslit Poweradebikarsins.
Heildarskor:
Stjarnan: Keith Cothran 19/7 fráköst, Justin Shouse 17/8 fráköst/7 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 9, Fannar Freyr Helgason 8/10 fráköst, Dagur Kár Jónsson 8/4 fráköst, Sigurjón Örn Lárusson 5/10 fráköst, Guðjón Lárusson 2/7 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Jovan Zdravevski 0, Christopher Sófus Cannon 0, Aron Kárason 0.
Snæfell: Pálmi Freyr Sigurgeirsson 23/6 fráköst, Marquis Sheldon Hall 15/6 fráköst/5 stoðsendingar, Quincy Hankins-Cole 15/15 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Ólafur Jónsson 9/4 fráköst, Sveinn Arnar Davidsson 4, Hafþór Ingi Gunnarsson 3, Ólafur Torfason 2/7 fráköst, Óskar Hjartarson 2, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0, Snjólfur Björnsson 0, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Daníel A. Kazmi 0.
Umfjöllun/Elías Karl Guðmundsson



