spot_img
HomeFréttirSnæfell í 3. sætið eftir sigur í DHL-Höllinni

Snæfell í 3. sætið eftir sigur í DHL-Höllinni

Snæfell lagði KR 82-86 í DHL-Höllinni í kvöld eftir jafnan og skemmtilegan leik. KR setti niður mikilvæga þriggja stiga körfu þegar um sekúnda lifði leiks en þessi þrjú stig tryggðu KR sigur í innbyrðisviðureigninni gegn Snæfell komi til þess að liðin verði jöfn að stigum þegar deildarkeppni lýkur. Eftir kvöldið er Snæfell þó með 26 stig í 3. sæti deildarinnar en KR er komið í 5. sætið og þar með út úr úrslitakeppnissæti með 24 stig.
Hildur Sigurðardóttir var í byrjunarliði Snæfells í kvöld en hún meiddist í síðustu umferð gegn Haukum. Alda Leif Jónsdóttir mætti í búning en lék ekki með Hólmurum í kvöld sökum meiðsla. Þá voru þær Bryndís Guðmundsdóttir og Helga Einarsdóttir í borgaralegum klæðum á KR bekknum en báðar glíma þær við meiðsli.
 
Svæðisvörn Snæfells fékk snemma þrjá þrista yfir sig frá Margréti Köru Sturludóttur og gestirnir skiptu fljótt í maður á mann vörn en KR var ferskara liðið framan af og komst í 15-10 áður en Hólmarar gerðu 6-0 áhlaup sem lauk með þriggja stiga körfu frá Helgu Hjördísi Björgvinsdóttur. Það var svo Snæfell sem jafnaði stöðuna í 20-20 með flautukörfu í fyrsta leikhluta sem var opinn og skemmtilegur.
 
KR fékk aðeins dæmdar á sig tvær villur í fyrsta leikhluta og báðar komu þær í hlut Margrétar Köru og sú þriðja leit dagsins ljós í öðrum leikhluta þegar mínúta var til hálfleiks. Vörn KR var ekki eins og best verður á kosið í fyrri hálfleik enda ekki ráðlegt að vera með aðeins þrjár villur eftir næstum 20 mínútna leik.
 
Berglind Gunnarsdóttir kom svellköld af bekknum og breytti stöðunni í 29-31 fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu og ekki löngu síðar jók Jordan Murphree muninn í 10 stig, 29-39. Kieraah Marlow reyndist KR einnig erfið í fyrri hálfleik og Hólmarar leiddu 40-48 í leikhléi.
 
Röndóttar komu baráttuglaðar inn í síðari hálfleikinn og skoruðu fjögur fyrstu stigin, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir átti fína spretti fyrir KR og kláraði vel þegar bakverðirnir fundu hana í teignum. Sigrún Ámundadóttir náði svo að jafna metin í 51-51 með þriggja stiga körfu fyrir KR og 11-3 byrjun heimakvenna færði líf í leikinn. Rannveig Ólafsdóttir setti annan þrist fyrir KR sem minnkaði muninn í 55-58 og Hafrún Hálfdánardóttir gerði flautukörfu fyrir KR í Snæfellsteignum og staðan 65-68 fyrir Snæfell eftir þrjá leikhluta. Jordan Murphree var komin með 30 stig hjá Snæfell eftir þrjá leikhluta en Hólmarar sem höfðu góða nýtingu í fyrri hálfleik voru ekki að hitta jafn vel í þeim síðari en sátu engu að síður við stýrið í leiknum.
 
Erica Prosser lék vel fyrir KR í kvöld og þristur frá henni minnkaði muninn í 74-78 og annar frá Prosser breytti stöðunni í 77-80 en röndóttar náðu aldrei að komast upp að hlið Snæfells í fjórða leikhluta. Herslumuninn vantaði. Þegar hálf mínútna var til leiksloka og KR í sókn komust gestirnir inn í sendingu og þar með var björninn unnin. KR var þó vel með á nótunum, vissu að tap með fjórum stigum myndi samt tryggja þeim innbyrðis viðureignina gegn Snæfell ef kæmi til þess að liðin yrðu jöfn að stigum að lokinni deildarkeppni. Rándýr þristur leit þá dagsins ljós sem minnkaði muninn í 82-86 sem urðu lokatölurnar í kvöld.
 
Endanleg tölfræði er ekki komin, hér að neðan fer tölfræði leikmanna fram að stöðunni 74-80 í leiknum:
 
KR: Erica Prosser 23/8 stoðsendingar, Margrét Kara Sturludóttir 21/10 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 11/5 fráköst, Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir 10, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 6/8 fráköst/5 stoðsendingar, Rannveig Ólafsdóttir 3, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Anna María Ævarsdóttir 0, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Rut Konráðsdóttir 0, Sólrún Sæmundsdóttir 0.
 
Snæfell: Jordan Lee Murphree 30/7 fráköst/6 stoðsendingar, Kieraah Marlow 16/8 fráköst, Hildur Sigurdardottir 12/6 fráköst/6 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 8, Berglind Gunnarsdóttir 5, Hildur Björg Kjartansdóttir 4, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Sara Mjöll Magnúsdóttir 2, Ellen Alfa Högnadóttir 0, Alda Leif Jónsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0.
 
Dómarar: Jón Guðmundsson, Ísak Ernir Kristinsson
 
Mynd/ Jordan Murphree var stigahæst Snæfellskvenna í kvöld
 
Fréttir
- Auglýsing -