spot_img
HomeFréttirSnæfell færist nær úrslitakeppnissæti

Snæfell færist nær úrslitakeppnissæti

Snæfell færðist nær sæti í úrslitakeppninni með sigri á Val að Hlíðarenda í dag.  Snæfell hefur nú 22 stig í 5 sæti deildarinnar, aðeins 2 stigum á eftir KR sem tapaði óvænt fyrir Hamri í dag.  Snæfell var vel að sigrinum komin í dag en þær leiddu leikinn frá upphafi og stungu Val af í þriðja leikhluta og náðu mest 21 stigs forskoti og sem reyndist Val of mikið þegar þær náðu góðu áhlaupi í fjórða leikhluta.  Snæfell vann á endanum 6 stiga sigur, 82-88.  
Lið Snæfells spilaði vel sem heild í dag og skoruðu 5 leikmenn þess 12 stig eða meira.  Þar var Jordan Lee Murphree stigahæst með 22 stig og 9 fráköst.  Næstar voru Kieraah Marlow með 21 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar og Hildur Sigurðardóttir með 16 stig og 7 fráköst.  Í liði Vals var Melissa Lechlitner stigahæst með 29 stig en næstar voru Lacey Simpson með 13 stig og 15 fráköst og María  Ben Erlingsdóttir með 12 stig.

Leikurinn fór mjög fjörlega af stað og gestirnir náðu strax frumkvæðinu.  Strax eftir 2 mínútur af leik hafði Snæfell yfir 5-11 og leikurinn fór hratt af stað.  Snæfell hélt uppteknum hætti og höfðu 5-8 stiga forskot framan af fyrsta leikhluta. Snæfell náði mest 8 stiga forskoti í stöðunni 14-22 en þá fóru hlutirnar að breytast. Þegar leið á leikhlutan fóru Valsstúlkur að pressa Snæfell hátt og virtust með því komast smám saman aftur inní leikinn.  Snæfell hafði svo yfir með einu stigi þegar fyrsta leikhluta var lokið, 29-30.  

Snæfell skoraði fyrstu 5 stig annars leikhluta og höfðu því 6 stiga forskot strax eftir eina og hálfa mínútu.  Valur svaraði því fljótt og höfðu jafnað leikinn í stöðunni 37-37 þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar.  Varnarleikur liðanna var allt annar en í fyrsta leikhluta og skotin voru að geiga á báðum endum vallarins.  Snæfell tók þá aftur á skarið og þegar þrjár og hálfa mínútur voru eftir tók Ágúst Björgvinsson leikhlé fyrir Val í stöðunni 39-45.  Snæfell hafði góð tök á leiknum og boltinn ætlaði ekki ofaní fyrir Valsstúlkur.  Munurinn á liðunum var kominn upp í 11 stig þegar ein og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum, 41-52.  Snæfell hélt þeim mun það sem eftir var fyrri hálfleiks og leiddu með 9 stigum, 45-54.  

Stigahæst í liði Snæfells í hálfleik var Hildur Sigurðardóttir með 14 stig en næstar voru Kieraah  Marlow með 10 stig, 6 frákost og 5 stoðsendingar og Helga Hjördís Björgvinsdóttir með 10 stig.  Í liði Vals var Melissa Lechlitner yfirburðarmanneskja með 16 stig en næstar voru María Ben Erlingsdóttir með 8 stig og Lacey Simpson með 7 stig og 8 fráköst.  

Snæfell bætti enn í forskotið á upphafsmínútum þriðja leikhluta og höfðu náð 13 stiga forskoti í stöðunni 48-61 eftir tvær mínútur.  Sóknarleikur Vals var ekki að skila þeim miklu og Snæfell gekk á lagið.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður tók Ágúst Björgvinsson leikhlé fyrir Val en forskot gestana var þá komið í 14 stig, 54-68.   Kieraah Marlow og Jordan Lee Murphree fóru fyrir Snæfellsliðinu sem keyrði hreinlega yfir Val í leikhlutanum.  Þegar 2 mínútur voru eftir var munurinn kominn upp í 19 stig, 54-73.  Þegar einn leikhluti var eftir af leiknum höfðu gestirnir 17 stiga forskot, 58-75, og útlitið ekki bjart fyrir Valsstúlkur.  

Valur náði smám saman að minnka muninn í fjórða leikhluta.  Björg Guðrún Einarsdóttir lenti í því að renna á gólfinu og lenti illa.  Hún var borin útaf og kom ekki meira við sögu í leiknum.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður hafði Valur náð forskoti Snæfells niður í 13 stig og aggressífur varnarleikur Vals var farinn að skila sér.  Valur gerði allt sem þær gátu til þess að koma sér aftur inní leikinn en munurinn var hreinlega of mikill.  Þegar ein mínúta var eftir af leiknum var munurinn kominn niður í 8 stig, 80-88.  Pressuvörn Vals skilaði þeim svo aftur inní leikinn þegar 38 sekúndur voru af leiknum.  Þórunn Bjarnadóttir stal þá boltanum og Valur fékk auðvelda körfu, 82-88.  Ingi þór Steinþórsson tók þá leikhlé fyrir Snæfell.  Þessar 38 sekúndur voru hins vegar fljótar að hverfa því Snæfell tókst að spila seinustu sóknina og klára leikinn.  

Umfjöllun/ [email protected]
Mynd/ [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -