spot_img
HomeFréttirSnæfell eina liðið sem ekki hefur orðið meistari

Snæfell eina liðið sem ekki hefur orðið meistari

 
Af þeim fjórum liðum sem nú leika til undanúrslita í Iceland Express deild karla er aðeins eitt lið sem ekki hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum en það er Snæfell. Hin þrjú, Njarðvík, KR og Keflavík hafa fjölda titla á bakinu en Njarðvíkingar þó flesta.
Njarðvíkingar eru það lið sem næstoftast hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn eða alls 13 sinnum. Eina liðið sem unnið hefur þann stóra oftar er ÍR eða 15 sinnum. KR er ekki langt á eftir Njarðvíkingum með 11 Íslandsmeistaratitla og þá hafa Keflvíkingar unnið titilinn 9 sinnum.
 
Snæfell lék síðast til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn leiktíðina 2007-2008 og máttu þá þola 3-0 tap gegn Keflavík. Reyndar hafa Snæfellingar þrívegis leikið til úrslita um titilinn og í öll skiptin tapað gegn Keflavík. Fyrst árið 2004 tapaði Snæfell 3-1, aftur árið á eftir 3-1 og loks síðast árið 2008 og þá lá Snæfell 3-0 gegn Keflvíkingum eins og fyrr segir.
 
Hvort stundin sé runnin upp hjá Hólmurum skal ósagt látið en ef einhver þjálfari er vel til þess fallinn að stýra liðinu í gegnum undanúrslitin er það Ingi Þór Steinþórsson sem þekkir andstæðinginn jafnvel ef ekki betur en þeir sjálfir.
 
Fréttir
- Auglýsing -