spot_img
HomeFréttirSnæfell bikarmeistari í unglingaflokki kvenna

Snæfell bikarmeistari í unglingaflokki kvenna

Snæfell er bikarmeistari í unglingaflokki kvenna eftir 58-61 spennusigur á Val í Vodafonehöllinni. Snæfell leiddi allan leikinn en Valur gerði nokkrar hressilegar tilraunir til þess að stela sigrinum og minnstu munaði að það tækist en Berglind Gunnarsdóttir setti niður tvo þrista á lokasprettinum sem riðu að lokum baggamuninn í dag. Berglind var valin besti maður leiksins með 22 stig og 12 fráköst. Hjá Val var Guðbjörg Sverrisdóttir fremst meðal jafningja með 29 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.
Heimakonur í Val mættu með svæðisvörn til leiks gegn sjö Hólmurum sem voru fáliðaðir í dag en þó valin kona í hverju rúmi. Gestirnir úr Stykkishólmi mættu ferskari til leiks og náðu 2-8 forystu eftir nokkuð mistækar upphafsmínútur á báða bóga. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 6-10 Snæfell í vil og gekk báðum liðum nokkuð brösuglega að finna körfuna þessar fyrstu tíu mínútur.
 
Snæfell opnaði annan leikhluta með 7-0 áhlaupi en þá létu þær Guðbjörg Sverrisdóttir og Ragnheiður Benónýsdóttir til sín taka hjá Val með góðri baráttu. Hólmarar höfðu þó undirtökin og leiddu 25-33 í hálfleik en Valur vann annan leikhluta 23-19 og sóknarleikur liðanna hrokkinn í gang eftir hrollkaldan fyrsta leikhluta.
 
Guðbjörg Sverrisdóttir var með 15 stig og 4 fráköst í liði Vals í hálfleik en hjá Snæfell var Hildur Björg Kjartansdóttir með 11 stig og 7 fráköst.
 
Björg Guðrún Einarsdóttir opnaði síðari hálfleikinn fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu og Hólmarar tóku 6-0 áhlaup áður en Valskonur rönkuðu við sér. Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir gerði fyrstu stig Vals í leikhlutanum með körfu í teignum þegar næstum þrjár og hálf mínúta var liðin af síðari hálfleik.
 
Guðbjörg Sverrisdóttir átti einnig góðar rispur í þriðja leikhluta fyrir Val og minnkaði muninn í 33-39 með þriggja stiga körfu. Hildur Björg Kjartansdóttir var iðin við kolann á báðum endum vallarins í liði Snæfells en hún var komin með þrjár villur seint í leikhlutanum og undir lokin fékk svo Sara Mjöll Magnúsdóttir sína fjórðu villu í liði Snæfells, dýrt fyrir sjö manna leikmannahóp Hólmara. Valur vann leikhlutann 18-15 en Snæfell leiddi þó 42-48 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
 
Margrét Ósk Einarsdóttir minnkaði muninn í 45-48 fyrir Val með þriggja stiga körfu í upphafi fjórða leikhluta en þá komu fjögur Snæfellsstig í röð og staðan 45-52. Þreytan var farin að segja til sín í hópi Snæfells og þegar 4.11mín. voru til leiksloka náði Guðbjörg Sverrisdóttir að jafna metin í 54-54 með þriggja stiga körfu fyrir Val.
 
Berglind Gunnarsdóttir setti tvær risavaxnar körfur fyrir Snæfell þegar allt var komið í járn, fyrst þristur sem breytti stöðunni í 55-57 þegar tvær mínútur voru eftir og annar slíkur fór niður þegar 1.26mín voru til leiksloka og kom Snæfell í 55-60.
 
Valur náði að minnka muninn í 58-60 þegar brotið var á Guðbjörgu Sverrisdóttur í þriggja stiga skoti og Guðbjörg öryggið uppmálað setti niður öll vítin. Berglind Gunnarsdóttir fór svo á vítalínuna fyrir Snæfell og skoraði úr öðru skotinu, staðan 58-61 fyrir Snæfell þegar Valur hélt í lokasóknina. Valskonur ákváðu að sækja inn í teiginn þremur stigum undir en þeim tókst ekki að skora, Snæfell náði frákastinu og fagnaði svo bikarmeistaratitlinum af mikilli innlifun.
 
 
Snæfell:
Berglind Gunnarsdóttir – 22 stig, 12 fráköst
Hildur Björg Kjartansdóttir – 15 stig, 16 fráköst
Sara Mjöll Magnúsdóttir – 10 stig, 13 fráköst
 
Valur:
Guðbjörg Sverrisdóttir – 29 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar
Margrét Ósk Einarsdóttir – 10 stig, 5 fráköst
Ragnheiður Benónýsdóttir – 9 stig, 14 fráköst
 
Karfan.is óskar Snæfell innilega til hamingju með bikartitilinn
 
Umfjöllun og mynd/ [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -