spot_img
HomeFréttirSmáir en knáir: Hamar vann í Iðu

Smáir en knáir: Hamar vann í Iðu

 
FSu tók á móti Hamri í Iðu á Selfossi í kvöld. Heimamenn höfðu fyrir leikinn smá væntingar um að nú kæmi fyrsti sigurinn, eftir allgóða frammistöðu gegn KR á útivelli sl. mánudag. En þrátt fyrir ágæta atlögu rættist þessi draumur ekki og Hamar vann með þrettán stiga mun, 78-91.
Það var þó ekki fyrr en á síðustu mínútunum sem þannig skildi milli liðanna. Heimamenn voru grimmari og betri framan af leiknum. Upphafið lofaði góðu og FSu leiddi allan fyrsta hlutann, komst í 10-2, þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan 15-10 og eftir 10 mínútna leik 25-18. Í öðrum leikhluta héldu Selfyssingar ágætum dampi framan af, leiddu 33-23 og 41-31 þegar þrjár og hálf mín. var til hálfleiks. Gestirnir tóku sig á og skoruðu 12 stig gegn 2 svo leikar stóðu jafnir í hálfleik, 43-43.
 
Um miðjan þriðja leikhluta var heimaliðið enn 8 stigum yfir, 59-51. Þá kom afleitur kafli, Hamrarnir skoruðu 11-0 og komst yfir 59-62. Eftir þriðja fjórðung var staðan 61-66 og allt gat svo sem gerst. En þrátt fyrir ítarlegar tilraunir og ágæt tækifæri tókst heimastrákum ekki að komast almennilega inn í leikinn á ný. Þeim var fyrirmunað að skora úr opnum færum, boltinn vildi ekki ofan í, Hamar hélt sjó og jók muninn í níu stig, 72-81 þegar rúmar 4 mín. voru eftir. FSu. klóraði í bakkann en Andre Dabne gerði gæfumuninn með 5 stigum í röð og tryggði Hvergerðingum dýrmætan sigur, lokatölur 78-91 eins og fyrr sagði.
 
Leikur þessi var ekki upp á marga fiska í sjálfu sér. Hamarsliðið hitti ekki á góðan leik í kvöld og Dabney hélt því á floti. Hann skoraði 35 stig og tók 11 fráköst, þessi tappi. Þó verður að nefna Pál Helgason, tvítugan strák sem lék gallalítinn leik, 13 stig og 5 fráköst, og stóð vel fyrir sínu. Aðrir voru ekki í sínu besta formi, Marvin t.d. oftast leikið betur, þó frammistaðan dygði til að sigra botnliðið. Í Hamarsliðinu eru samt sem áður nokkrir efnilegir og vel spilandi ungir strákar, sem sannarlega eiga framtíðina fyrir sér, og alls ekki hægt að ætlast til að þeir brilleri í hverjum leik.
 
Hjá FSu var Richard Williams allt í öllu. Að mörgu leyti svipaður leikmaður og Dabney, pínulítill og skruggufljótur. Hann gerði marga fallega hluti og er mikill fengur að honum fyrir hið bráðunga FSu-lið. Williams lék allan leikinn á fullu gasi og verður að hrósa honum fyrir sitt framlag, 27 stig og hvorki fleiri né færri en 16 fráköst, heilum 10 fleiri en miðherji liðsins. Því miður hittu hinir strákarnir ekki á sinn besta dag, en til að liðið vinni leik verða allir að sýna sitt besta, og helst meira en það. Eini miðherji FSu sat löngum stundum á bekknum í villuvandræðum og við því mátti liðið ekki gegn tröllunum sterku úr Hamrinum, Ragnari og Svavari Páli, sem einnig hafa Bjarna Lárusson til afleysinga. Zimnickas setti þó 15 stig, flest í upphafi leiks.
 
Þrátt fyrir tapið eru augljós batamerki á FSu liðinu. Ekki kæmi á óvart þó sigur ynnist fyrr en seinna, þó raunsæis verði að gæta og allt eins gæti farið svo að liðið fylgdi fordæmi Stjörnunnar og tapaði öllu. Það gerði þá heldur ekkert til. Ef menn sýna þolgæði og staðfestu rís dagur á ný, og dugar að vísa aftur til Stjörunnar úr Garðabæ sem nú er bikarmeistari og á toppi Iceland Express deildarinnar. Sigurinn í kvöld var mikilvægur fyrir Hvergerðinga sem stefna á úrslitakeppni. Þeir verða þó að brýna sverðin eitthvað og bíta í skjaldarrendur, ef þeir ætla sér að standast sterkari liðunum snúning.
 
Ljósmynd/ Dabney fór fyrir liði Hamars í kvöld
 
Texti: Gylfi Þorkelsson
Fréttir
- Auglýsing -