spot_img
HomeFréttirSlobodan hugsanlega til liðs við Snæfellinga

Slobodan hugsanlega til liðs við Snæfellinga

16:05
{mosimage}

(Er Slobodan aftur á leið í rautt?)

Þær fregnir hafa komist á kreik að Slobodan Subasic sé á leið aftur til Snæfells en hann samdi við Njarðvíkinga í sumar og á dögunum var honum sagt upp samningi sínum í Ljónagryfjunni. Karfan.is ræddi við Hlyn Elías Bærinsson annan tveggja þjálfara Snæfells og staðfesti hann að Slobodan vildi koma til liðs við Snæfell.

,,Við erum samt ekki vissir í þessari sök fyrr en hann einfaldlega kemur til okkar. Honum var sagt upp í Njarðvík og hafði samband við okkur og vildi fá vinnu hér í bæ ef eitthvað væri að gera. Eins og við vitum þá er ekki hægt að borga honum laun hér frekar en í Njarðvík en þetta er félagi okkar og fyrir utan að hann myndi hjálpa liðinu þá viljum við hjálpa honum,“ sagði Hlynur.

,,Það er vonandi að þetta blessist en Slobodan hentar okkur betur en Njarðvíkingum þar sem staðan hans er vel skipuð í Njarðvík en ekki hér í Hólminum. Það þarf samt enginn að velkjast í vafa um það að við erum ekki að fara að kaupa leikmanninn, það þyrfti eitthvað mikið að gerast til þess. Ég fæ ekki séð að ríkisreknir bankar séu að fara að setja mikinn pening í þetta dæmi,“ sagði Hlynur léttur í bragði.

,,Við erum að gera svipaða hluti og þegar Geoff Kotila var með okkur svo Slobodan veit að hverju hann gengur hjá okkur og vonandi kemur hann bara með Magna á leikinn í kvöld,“ sagði Hlynur en sagði að Slobodan yrði ekki í liðinu í kvöld. Ingvaldur Magni Hafsteinsson er í lögregluskólanum í Reykjavík en Hlynur sagði hann gríðarlega mikilvægan fyrir Hólmara. ,,Magni hefur spilað fleiri leiki en hann hefur mætt á æfingar! Það er nauðsynlegt engu að síður að hafa hann með okkur í hverjum einasta leik því hann er okkur mjög mikilvægur,“ sagði Hlynur sem ætlar sér að vera með í kvöld þrátt fyrir að vera ekki orðinn alheill af tognun í læri.

,,Við verðum að tjalda öllu til þegar Keflavík kemur í heimsókn. Það er hægt að segja að við eigum alltaf harma að hefna gegn Keflavík í ljósi síðustu ára en sigur í kvöld bætir ekki fyrir tapleikina í úrslitum gegn þeim,“ sagði Hlynur ákveðinn og bætti við að sínir menn ætluðu sér sigur í kvöld. Hlynur kvað hljóðið í sínum mönnum gott þrátt fyrir að fótunum hefði verið kippt undan Snæfellingum eins og svo mörgum öðrum liðum. Honum finnst Snæfell hafa spilað nokkuð vel miðað við áföll undanfarinna vikna og að ungir leikmenn hafi fengið mikilvæg tækifæri.

Snæfell tekur á móti Keflavík í Stykkishólmi í kvöld kl. 19:15.

[email protected]

Myndir: [email protected] og [email protected] 

 

{mosimage}
(Hlynur Elías Bæringsson)

Fréttir
- Auglýsing -