Slavica Dimovska, leikstjórnandi toppliðs Hamars í Iceland Express deild kvenna í körfubolta, var um helgina valin körfuboltakona ársins í Makedóníu. Þetta er í fyrsta sinn sem hún hlýtur þessi verðlaun. Frá þessu greindi www.visir.is um helgina.
Slavica hélt upp á daginn með því að eiga stórleik á móti Keflavík í toppslag deildarinnar en hún var með 22 stig og 6 stoðsendingar í 32 stiga sigri Hamars. Hamar hefur unnið alla 14 deildarleiki sína og Slavica er með 16,6 stig og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Slavica var allt í öllu í liði Mladinec Skopje á síðasta tímabili og var kosin besti leikmaður úrslitakeppninnar þar sem liðið tryggði sér makedóníska meistaratitilinn eftir 3-1 sigur á Vigor Skopje í úrslitaeinvíginu.