23:20
{mosimage}
(Slavica með verðlaunin sem besti leikmaður úrslitakeppninnar)
,,Mér líður svakalega vel, þetta er í fyrsta sinn sem ég vinn titil og er valin besti leikmaður úrslitakeppninnar svo ég er hamingjusamasta manneskjan í heiminum í dag,“ sagði Slavica Dimovska leikstjórnandi Íslandsmeistara Hauka í samtali við Karfan.is eftir 69-64 sigur Hauka á KR í oddaleik liðanna í Iceland Express deild kvenna.
Slavica gerði 27 stig fyrir Hauka í kvöld, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. ,,Ég var virkilega að reyna mitt besta í kvöld og þegar ég kom til Hauka í byrjun tímabils var það ávallt markmiðið að verða Íslandsmeistari svo ég er gríðarlega ánægð með að vera komin alla leið,“ sagði Slavica og viðurkenndi að einvígið hefði verið erfitt og að sóknarleikur Hauka hefði oft lent í miklu basli gegn grimmri vörn KR.
,,Við sögðum við okkur sjálfar í kvöld þegar líða fór á leikinn að við yrðum að vera sterkar og ég held að það hafi skipt mestu máli að við héldum haus í kvöld,“ sagði Slavica og vildi meina að nýtt kerfi hjá Haukum hefði gert gæfumuninn.
,,Við gerðum eina breytingu sem virkaði mjög vel gegn tígulsvæði KR og svo stóðum við okkur vel í vörninni en ég er gersamlega alveg búin og er mjög þreytt og fagna hvíldinni núna,“ sagði Slavica en verður hún með Haukum á næstu leiktíð?
,,Það væri mér mikill heiður að koma aftur,“ svaraði þessi öflugi leikstjórnadi frá Makedóníu.



