spot_img
HomeFréttirSlakt í Keflavíkinni

Slakt í Keflavíkinni

Keflvíkingar komu sér í vænlega stöðu fyrir loka umferðir mótsins í kvöld með sigri á grönnum sínum úr Njarðvík 82:69. Leikur þessi náði aldrei þeim hæðum sem fólk býst við þegar þessi lið annars vegar mætast. En sigur heimamanna var verðskuldaður gegn slöku liði Njarðvíkinga.
Keflvíkingar byrjuðu leikinn sterkari og skora fyrstu 2 körfurnar. Jafnt var á með liðunum framan af leik. Njarðvíkingar fóru í svæðisvörn eftir þriggja mínútna leik eftir að Keflvíkingar höfðu nánast skorað af vild. Það er augljóslega mikil áhersla hjá dómurum þessa dagana að ekkert “taut” frá bekknum verður liðið því Guðjón Skúlason þjálfari Keflvíkinga virtist fá tæknivillu fyrir minnsta tilefni á 5. mínútu leiksins. Ólíkt bikarleiknum í Keflavík síðast þá voru Njarðvíkingar að leita meira inní teiginn í upphafi leiks. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 23:18 heimamönnum í vil.
 
Keflvíkingar pressuðu stíft á Njarðvíkinga og hægðu þar með mikið á leik liðsins. Njarðvíkingar áttu í mesta basli einfaldlega með að stinga boltanum niður í drippl án þess að Keflvíkingar stálu af þeim knettinum eða náðu að slá í boltann. Með þrist frá Gunnari Stefánssyni komust Keflvíkingar í tíu stiga forystu og því fylgdi Þröstur Leó með öðrum þrist og staðan orðin 31:18. Á tímum virtust grunnatriði körfuknattleiks vefjast fyrir Njarðvíkingum og einföldustu sendingar rötuðu annað hvort út af eða beint í hendurnar á Keflvíkingum. Eftir 6 mínútna leik í öðrum fjórðung höfðu gestirnir í grænu ekki ennþá sett niður stig í fjórðungnum. Nick Bradford setti svo loksins niður þrist fyrir sitt lið og minnkaði muninn niður í 12 stig. Njarðvíkingar skoruðu aðeins 5 stig í fjórðungnum og var Nick Bradford með þau öll. Keflvíkingar voru hinsvegar ekki að nýta sér þessa spilamennsku nágranna sinna nægilega vel, en leiddu þó með 14 stigum í hálfleik 37:25. Njarðvíkingar höfðu þá tapað 18 boltum og virtust heillum horfnir.
 
Njarðvíkingar mætu eilítið grimmari til leiks í seinni hálfleik og þá sérstaklega varnarlega. Njarðvíkingar skoruðu fyrstu 8 stig hálfleiksins og staðan allt í einu 37:31. Væg flugeldasýning var svo sett í gang þegar liðin skiptust á sitthvorum tveimur þristunum . Staðan var 43:36 þegar 5 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og stemmningin í húsinu líkt og í léttu matarboði. Áfram hélt líklega einn sá alslakasti leikur á milli þessara liða sem undirritaður hefur orðið vitni að. Liðin skiptust bróðurlega á körfum út leikhlutann og leiddu heimamenn með 9 stigum fyrir síðasta fjórðunginn 56:47.
 
Keflvíkingar ætluðu sér svo sannarlega sigur í þessum leik. Þeir mættu töluvert ákveðnari í fjórða fjórðung og höfðu komið sér í myndarlega 15 stiga forystu þegar 5 mínútur voru til leiksloka. Njarðvíkingar virtust vera bara nokkuð sáttir með það eitt að hafa mætt yfir í Keflavík því heimamenn bættu bara í á meðan gestirnir voru gersamlega úti á þekju beggja megin vallarins. Stuðningsmenn Njarðvíkinga voru farnir að tínast út úr húsinu þegar um 3 mínútur voru til leiksloka og í raun ótrúlegt að þeir dugðu svona lengi . Keflvíkingar léku sér að liði Njarðvíkinga í þetta skiptið og luku leik með sannfærandi sigri.
 
Sem fyrr segir ekki fallegasti leikurinn og bæði lið eiga töluvert inni. Hjá Keflavík var Draelon Burns með 21 stig en hjá Njarðvíkingum Magnús Þór Gunnarsson með 15 stig. Njarðvíkingar tapa þessum leik hinsvegar á töpuðum boltum en það fóru 30 sóknir þeirra annað hvort í hendur Keflvíkinga eða út af vellinum.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -