spot_img
HomeFréttirSkyttur Grindavíkur kláruðu Valsliðið

Skyttur Grindavíkur kláruðu Valsliðið

Valsliðið mætti ofjörlum sínum 32 liða úrslitum Powerade-bikarkeppninni þegar Grindavík mætti í heimsókn í Vodafonehöllina að Hlíðarenda. Það var aðeins í fyrsta fjórðungi sem jafnræði var með liðunum en Valsmenn leiddu í upphafi og voru yfir 11-6 eftir fimm mínútna leik. Þá tóku Grindvíkingar við sér og skoruðu 20 stig gegn 13 stigum Vals og því var staðan 24-26 fyrir Grrindavík eftir fyrsta leikhluta. Grindavík með 80% skotnýtingu í tveggja stiga skotum!
 
Síðan dró meira og meira í sundur með liðunum, um miðjan annan fjórðung leiddi Grindavík 32-39 og eftir stórskotahríð í öðrum leikhluta var staðan orðin 43-55 fyrir Grindavík sem nýtti 66.7% tveggja stiga skota sinna og 54.5% þriggja stiga skota í fyrri hálfleik! Valsliðið alls ekki að spila illa en erfitt er fyrir lið að spila gegn Grindavík þegar þeir hitta eins og þeir gerðu í fyrri hálfleik!
 
Skotsýningin hélt svo áfram í seinni hálfleik og augljóst hvaða lið færi með sigur af hólmi. Þriðji fjórðungur var þó öllu jafnari en annar fjórðungurinn en Grindavík bætir enn við forystuna og vinnur þriðja fjórðung 16-23. Þorleifur Ólafsson er búinn að fara illa með Valsvörnina og er með stjarnfræðilega háa skotnýtingu 83.3% í tveggja og 55.6% í þriggja stiga skotum og er búinn að skora 25 stig þegar þriðji leikhluti er úti! Staðan 59-78 Grindavík í vil.
 
Í lokaleikhlutanum fá síðan allir leikmenn liðanna að koma inná en það hefur engin áhrif á úrslit leiksins, Grindavík bætir bara í og vinnur lokaleikhutann 17-25. Valsliðið átti lítið í Grindavíkurliðið í kvöld og alltof fáir leikmenn eru með almennilegt framlag í leiknum. Chris Woods var að venju atkvæðamestur í liðinu með 27 stig og 11 fráköst. Birgir Björn átti sinn besta leik í vetur með 18 stig og 11 fráköst en mætti nýta vítin sín betur! Aðrir leikmenn eins og Benedikt Blöndal, Ragnar Gylfa, Rúnar Erlings og Oddur Ólafs áttu ágæta spretti en þeir komu of sjaldan og vörðu í of stuttan tíma! Þorleifur Ólafsson átti flottan leik, Ólafur Ólafsson setti 13 stig og tók 8 fráköst og Sigurður Gunnar Þorsteinsson 11 stig og 9 fráköst og Ómar Örn Sævarsson 10 stig og 8 fráköst. Grindavík því komið áfram í 16 liða úrslit Powerade-bikarkeppninnar með auðveldum sigri á liði Vals 76-103.
 
 
Hannes Birgir Hjálmarsson / Vodafone höllin að Hlíðarenda
  
Fréttir
- Auglýsing -