,,Þetta eru búin að vera fjögur æðisleg ár og því skrýtið að hafa spilað seinasta heimaleikinn en spennandi á samta tíma því nú styttist í næsta kafla á ferlinum hjá manni,“ sagði Helena Sverrisdóttir sem leikið hefur sinn síðasta heimaleik fyrir Texas Christian University í bandarísku háskóladeildinni í körfubolta. Vitaskuld vannst öruggur sigur í þessum síðasta leik hjá TCU í Daniel Meyer Coliseum og nú framundan er úrslitakeppnin í Mountain West riðlinum. Það eina sem í raun er á boðstólunum er sigur til að komast í úrslitakeppni NCAA deildarinnar.
Áður en við héldum áfram með stöðu TCU og það sem framundan er þá inntum við Helenu um framhaldið á ferlinum og sagði hún eftirfarandi: ,,Að sjálfsögðu hugsar maður aðeins um þetta en pabbi sér mest um það allt saman, núna er ég bara að einbeita mér að því að klára TCU ferilinn með stæl.“
Þá aftur að TCU og því sem koma skal, úrslitakeppnin sjálf í Mountain West riðlinum sem hefst þann 8. mars n.k. og fer fram í Las Vegas. ,,Við höfum lært það undanfarin ár að það þýðir ekkert að horfa yfir nein lið þegar kemur að úrslitakeppninni. Við spilum fyrst við lið í 3., 6., eða 7. sæti þannig að við vitum það ekki fyrr en á miðvikudag hver andstæðingur okakr verður,“ sagði Helena og á von á því að topp lið riðilsins, BYU, muni spila til úrslita í riðlinum en TCU hefur ekki leikið til úrslita í riðlinum öll þrjú árin sem Helena hefur verið hjá skólanum en TCU tapaði í undanúrslitum í MWC í fyrra.
,,Til þess að komast inn í úrslitakeppni NCAA deildarinnar þurfum við að vinna MWC og það gefur sæti í úrslitakeppni NCAA deildarinnar. Allt annað en sigur þýðir líklegast að við komumst ekki inn sem yrði algjör skandall,“ sagði Helena í léttum dúr en yrði þeim ekki boðið sæti eins og hefur gerst áður?
,,Það eru litlar líkur á að við kæmumst inn á boði, þá er önnur keppni sem heitir WNIT sem er fyrir lið í okkar sporum, nálægt því að komast inn en tókst það ekki alveg,“ sagði Helena sem í síðasta heimaleiknum sínum fagnaði svokölluðu ,,senior night“ eða útskriftanemakvöldi.
,,Eftir síðasta heimaleikinn þá er hverjum og einum útskriftarnema fylgt út á gólfið með fjölskyldu sinni og farið yfir ferilinn og við heiðruð. Þetta er meira tilfinningalegt heldur en eitthvað annað, það er svolítið skrýtið að hugsa til þess að maður muni aldrei aftur spila á þessum heimavelli.“
Hver er þá þín stærast minning í Daniel Meyer Coliseum?
,,Þegar við unnum MWC deildina í fyrra, unnum deildarkeppnina í riðlinum, þá var einmitt ,,senior night“ og við klipptum niður netið og stemmningin í húsinu var frábær. Að sjálfsögðu mun maður svo aldrei gleyma þeim endalausu tímum sem maður eyddi þarna inni í æfingar og leiki,“ sagði Helena en vill hún eitthvað gefa okkur innsýn í markmið liðsins upp á framhaldið að gera?
,,Við ætlum allavega að fagna í kvöld, það er alveg klárt mál,“ sagði Helena og upplyfting því í vændum enda fjórir sterkir leikmenn að kveðja TCU þetta tímabilið og Helena ein þeirra.



