spot_img
HomeFréttirSkrímslatvenna hjá Carberry í Ljónagryfjunni

Skrímslatvenna hjá Carberry í Ljónagryfjunni

Þór Þorlákshöfn rétti úr kútnum í kvöld með öflugum 88-104 sigri á Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni. Tobin Carberry átti allsvakalegan leik í liði Þórsara með skrímslatvennu, 38 stig og 24 fráköst, en hann var einnig með 8 stoðsendingar svo hér var á ferðinni grafalvarlegt daður við þrennuna. Hjá Njarðvíkingum, sem nú hafa tapað þremur leikjum í röð, var Logi Gunnarsson stigahæstur með 25 stig en Njarðvíkingar finna sig á framandi slóðum þessa jólahátíðina í 11. sæti og næstsíðasta sæti deildarinnar.

Eftir varfærnislegar upphafsmínútur þar sem staðan var 12-12 komust gestirnir úr Þorlákshöfn á bragðið og bættu við 20 stigum á næstu fimm mínútum og leiddu 21-32 eftir fyrsta leikhluta! Vörn heimamanna hriplek og samtal í vörninni virtist vera með öllu bannað. Emil Karel Einarsson setti tvo góða þrista fyrir Þór í leikhlutanum og var stigahæstur eftir hann með 10 stig en Logi Gunnarsson var helsti broddurinn í sókn Njarðvíkinga með 11 stig.

Allt benti til þess að Þórsarar myndu hreinlega stinga af í öðrum leikhluta þegar Halldór Garðar Hermannsson skellti í þrist og gestirnir komust í 23-40! Heimamenn í Njarðvík fengu s.s. á sig 40 stig á 12 mínútum, falleinkunn í varnarleik svo mikið er víst. Jóhann Árni Ólafsson steig við þetta upp hjá Njarðvík og fór að láta til sín taka en heimamenn voru áfram að basla við að fá „stopp“ í vörninni. Emil Karel gerði þeim skráveifur og Þórsarar höfðu flott jafnvægi í „inn-út“ leik sínum, komu Jóni Arnóri nokkrum sinnum í vandræði á blokkinni, réðust af krafti á körfuna og fundu líka opin skot sem skytturnar voru að setja enda Þórsarar 8 af 12 í þristum í fyrri hálfleik.

Þegar 10 sekúndur lifðu af fyrri hálfleik tók Þór leikhlé, út úr því fékk Tobin Carberry boltann og þar var bara hreinsað frá, engin hindrun einu sinni og Tobin saumaði sig engu að síður upp að körfunni og kláraði fyrri hálfleik með látum, Njarðvík 48-61 Þór Þorlákshöfn. Þórsarar með fimm tapleiki í röð á bakinu voru mættir til að láta að sér kveða en Njarðvíkingar að basla við þekkt vandamál, skort á varnarleik.

Emil Karel Einarsson var stigahæstur hjá Þór í hálfleik með 17 stig og Ólafur Helgi Jónsson bætti við 11. Þá var Carberry með 9 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar í fyrri hálfleik. Hjá Njarðvík var Logi Gunnarsson stigahæstur með 19 stig en Jóhann Árni Ólafsson með 10.

Flestir myndu nú ætla að Njarðvíkingar kæmu snarvitlausir inn í síðari hálfleik en Þórsarar voru mun sprækari, komust í 55-70 og Tobin Carberry var þeim gríðarlega erfiður enda magnaður íþróttamaður þarna á ferð. Tobin tók í raun öll völd í síðari hálfleik, maðurinn skilaði af sér 38 stigum, 24 fráköstum og 8 stoðsendingum í kvöld. Sama hvað Njarðvíkingar reyndu áttu Tobin og Þórsarar alltaf svör.

Varnarleikur Njarðvíkinga batnaði vissulega í síðari hálfleik en að vissu leyti var skaðinn skeður þar sem munurinn var orðinn mikill og Þórsarar í fantagír. Lokatölur reyndust 88-104 fyrir Þór og fimmleikja taphrina því að baki og menn geta andað eitthvað léttar í Þorlákshöfn yfir hátíðarnar. Njarðvíkingar að sama skapi í þeirri stöðu að naflaskoða sig nokkuð rækilega um jólin.

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Skúli Sigurðsson
Umfjöllun – Jón Björn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -