spot_img
HomeFréttir37 stig frá Harris dugðu ekki í Hólminum

37 stig frá Harris dugðu ekki í Hólminum

 
Snæfell tók á móti Fjölni í fyrsta leik liðanna í riðlakeppninni í Iceland express deild kvenna. Bæði lið leika í B-riðli og er þar Snæfellsstúlkur efstar með 12 stig en Fjölnir neðstar með 6 stig. Monique Martin var ekki með Snæfelli í kvöld vegna leyfis. En Snæfellingar tefldu fram nýjum leikmanni sem kom í vikunni og heitir Laura Audere.
Byrjunarlið leiksins.
Snæfell: Laura, Björg, Berglind, Hildur, Helga.
Fjölnir: Natasha, Inga, Bergþóra, Eva, Birna.
 
Dómarar leiksins: Davíð Hreiðarsson og Davíð Tómasson.
 
Leikurinn byrjaði jafn þó Snæfell væru skrefinu á undan í fyrsta hluta en nýji leikmaður Snæfells Laura Audere virkaði vel innan liðsins og var komin með 10 stig en Natasha 7 stig fyrir Fjölni. Staðan var 23-14 eftir að flautuþristur frá Helgu Hjördísi rataði ofaní fyrir Snæfell.
 
Fjölnir náðu ekki að skora fyrstu þrjár mínútur annars hluta en Snæfell hafði sett fyrstu sjö stig leikhlutans og voru léttspilandi. Birna Eiríks bætti úr skori Fjölnis með þrist og staðan 30-17 fyrir Snæfell. Eitthvað gaf það tóninn og Fjölnir bættu svo heldur betur í og söxðu hratt á og var staðan snöggt 32-29. Snæfell var ekki að klára sóknir sínar líkt og örfáum augnablikum fyrr í leiknum en vörn Fjölnis strax einbeittari. Birna Eiríks setti svo sinn þriðja þrist í hlutanum og var hress í sóknarleik Fjölnis.
 
Staðan í hálfleik 36-30 fyrir Snæfell þar sem Laura Audere var komin með 12 stig og 6 fráköst og Berglind 9 stig fyrir Snæfell. Hjá Fjölni var Natasha Harris komin með 12 stig og Birna Eiríks 9 stig en Inga Buzoka var hörð í teignum og hafði rifið niður 9 fráköst.
 
Þriðji leikhluti var jafn og spennandi þar sem skin og skúrir voru hjá báðum liðum en Snæfell hafði þó forystuna heilt yfir og leiddi inní síðasta leikhlutann 55-46 en hjá Snæfelli var Laura með 18 stig og hjá Fjölni Natasha 19 stig.

 
Snæfell hélt 10 stiga forystu sinni um miðjan fjórða hluta þegar staðan var 61-51 og voru Fjölnisstúlkur ekki að nálgast þær af viti. Það var ekki fyrr en að þær fóru að pressa um miðjann hlutann og herða á varnarleiknum að hagur þeirra vænkaðist og þær söxuðu á 61-59. Snæfell náði að laga sinn leik og kom Berglind Gunnars þeim á bragðið aftur með þrist á ögurstundu og þær komust strax í 66-60.
 
Natasha minnkaði muninn í tvö stig með stórþrist úr horninu og var allt í öllu. Fjölnisstúlkur voru ekki hættar í stöðunni 69-67 en misstu þá Birnu Eiríksdóttur af velli með 5 villur en hún hafði verið djrúg á köflum. Mikil háspenna var undir lokin þegar mínúta var eftir og einu stigi munaði á liðunum 70-69 missti Snæfells boltann en náði honum strax aftur. Miklar hræringar voru í blálokin en Snæfell var svo með boltann þegar 5 sekúndur voru eftir og náðu þær að halda haus á vítalínunni á meðan Fjölnir voru búnar að vera að brjóta og leikurinn endaði 76-72 fyrir Snæfell sem verða þá áfram í fyrsta sæti B-riðils með 14 stig.
 
Helsta tölfræði leikmanna.
 
Snæfell:
Berglind Gunnars skoraði grimmt í leiknum og hefði hæglega getað bætt við 10 stigum ef nokkur sniðskot hefðu dottið niður. Berglind Gunnars endaði með 25/5 frák/3 stoðs. Laura Audere nýjsti leikmaður liðsins leit vel út og var með 22/9 frák/5 stoð. Sara Mjöll 11/5 frák. Alda Leif 9/5 frák. Helga Hjördís 3/9 frák. Hildur Björg 2/7 frák/3 stoð. Björg Guðrún 2/4 stoð. Ellen Alfa 2. Birta, Sunna og Aníta skoruðu ekki.
 
Fjölnir:
Natasha Harris var í gífurlegu formi, sjóðandi heit og setti niður 37 stig tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og stal 7 boltum. Birna Eiríksdóttir átti lúmska þrista á góðum augnablikum og endaði í 14/5 frák.. Inga Buzoka 10/13 frák/6 stoð. Bergþóra Holton 8/3frák. Eva María 2/3 frák. Erla Sif 1/4 frák/3 stoð. Heiðrún, Margrét, Sigrún, Dagbjört og Erna skoruðu ekki.
 
Myndir/ Þorsteinn Eyþórsson: Á efri myndinni er Sara Mjöll Magnúsdóttir í baráttunni en á þeirri neðri sækir nýjasti liðsmaður Hólmara, Laura Audere, að körfu gestanna.
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -