spot_img
HomeFréttirSkortur á þriðja dómaranum - er kominn tími á breytingar?

Skortur á þriðja dómaranum – er kominn tími á breytingar?

Þessa dagana er hver önnur snilldarserían í gangi í úrslitakeppninni hér heima. "Drottning allra íþrótta" stendur svo sannarlega fyrir sínu, svo maður vitni nú í  Svala Björgvins. Mjög margir leikir hafa einmitt verið sýndir á Stöð 2 sport, þannig að auðvelt er að setja sig inn í hverja seríu fyrir sig. Í gærkvöld fór ég í Dalhúsin og sá fyrsta leik Fjölnis og Skallagríms í 1.deild karla. Spennan var mikil og það kæmi ekki á óvart ef sú rimma færi í fimm leiki.

Eitt sem er mjög áberandi þegar horft er á leiki í Úrvalsdeild karla annars vegar og Úrvalsdeild kvenna og 1.deild karla hinsvegar, er skortur á þriðja dómaranum í deildunum síðarnefndu. Frá áramótum var ég aðstoðarþjálfari hjá kvennaliði Vals. Ég furðaði mig oft á því hversu lítið var dæmt á ákveðna hluti, en áttaði mig svo á því að sjónarhorn mitt frá bekknum væri það sama og þriðji dómarinn hefði. Ég sá því villur sem dómarar úti við miðlínu og undir körfunni ættu erfitt með að sjá. Þá skildi ég líka tilganginn í að bæta við þessum dómara, en þeir voru hér áður fyrr alltaf tveir og engum fannst neitt að því.

Ástæðan fyrir því að ekki sé hægt að manna þrjár dómarastöður í öllum deildum er sennilega skortur á dómurum og jafnvel kemur kostnaður þarna inní. Ég veit ekki hver er aðalástæðan en spyr mig hvort ekki sé kominn tími á breytingar, nú þegar leikjum fækkar og álagið á dómurum minnkar. Tvö bestu liðin í kvennaboltanum í vetur mætast nú í seríu sem hefur alla burði til að verða svakaleg. Það er pirrandi tilhugsun að vita að dómgæslan verði ekki eins góð og hugsast getur.  Ef einhverjar reglur koma ekki í veg fyrir það finnst mér rétt að endurskoða þetta nú áður en úrslitaleikirnir hefjast og langar mig að færa nokkur rök fyrir því. 

Fyrstu rökin fyrir því að hafa þrjá dómara í þessum leikjum eru einfaldlega þau að þá verða leikirnir betur dæmdir. Það þarf þó ekki að þýða að fleiri villur verði dæmdar því oft verður varnarleikur "hreinni" þegar leikmenn finna hvaða lína er lögð. Önnur rök eru þau að margir dómarar eru að dæma til skiptis í þessum deildum og eru þá að dæma til skiptis í tveggja og þriggja dómara teymi. Það gæti komið niður á frammistöðu þeirra í því fyrrnefnda. Þetta kom vel í ljós í leiknum í Dalhúsum í gær. Á mikilvægum tímapunkti vildu Fjölnismenn fá dæmda körfu góða vegna þess að Skallagrímsmaður hefði slegið í körfuna þegar boltinn var við hringinn. Hjalti, þjálfari Fjölnis, sagði mér eftir leikinn að dómarar hefðu afsakað sig með því að undir eðlilegum kringumstæðum  væri þetta hlutverk þriðja dómara og þeir hefðu bara misst af þessu. Hreinskilið svar sem sýnir samt að dómarar eru settir í erfiða stöðu með því að flakka svona á milli "kerfa". Það bitnar frekar á frammistöðu þeirra í tveggja dómara kerfi frekar en hitt. Þriðju rökin eru einfaldlega þau að á þessum "He for She" dögum sé þessi mismunun ekki í lagi. Úrslitaleikir kvenna hljóta að þurfa sömu umgjörð og úrslitaleikir karla.  

Burtséð frá dómaramálum er nokkuð ljóst að það eru frábærir dagar framundan í körfunni. Stöð 2 sport stendur sig rosalega vel og líklega verða allir úrslitaleikirnir í karla- og kvennaboltanum sýndir. Svali á örugglega eftir að koma með nokkrar góðar setningar þó erfitt sé að toppa "innbrotsþjófur með hóstakast". Eitthvað segir manni að þessi frábæri körfuboltavetur sem hófst með ævintýrinu í Berlín eigi eftir að veita okkur sem teljum okkur hluta af "Körfuboltafjölskyldunni" nokkur eftirminnileg augnablik í viðbót til þess að taka með okkur inn í sumarið.

Tóma Albert Holton

Fréttir
- Auglýsing -