spot_img
HomeFréttirSkilvirkir Valsmenn komu sér í 1-0

Skilvirkir Valsmenn komu sér í 1-0

Þá er veislan að hefjast, Valur – Stjarnan leikur 1! Valsmenn hafa verið sígandi lukku aðnjótandi á tímabilinu og enduðu í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig. Reyndar má segja nákvæmlega það sama um Stjörnumenn, fóru illa af stað en enduðu í 6. sæti með 26 stig. Leikur 1 fer því fram að Hlíðarenda en ef eitthvað er að marka viðureignir liðanna á tímabilinu og framgöngu Vals í úrslitakeppninni á síðasta tímabili hjálpar það Valsliðinu ekki neitt. Valsmenn unnu hins vegar góðan og öruggan sigur í Garðabænum í vetur – mun þessi forsaga hafa eitthvað að segja um úrslitin í kvöld, Kúla góð?

Kúlan: Það birtist myndbrot í Kúlunni að þessu sinni, greina má bláklæddan og þjófslegan en glaðbeittan náunga að sniglast um í rökkrinu…sem þýðir að Stjörnumenn munu stela heimaleikjaréttinum og hafa betur í kvöld, 77-84.

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Kári, Pablo, Pavel, Lawson

Stjarnan: Tommi, Hlynur, Hilmar, Hinn þriðji, Hopkins

Gangur leiksins

Valsarar fóru mun betur af stað og spiluðu stórvel beggja vegna miðlínu. Varnarmúrinn var þéttur og hvert og eitt einasta þriggja stiga skot fór beinustu leið. Heimamenn leiddu 17-8 eftir um 6 mínútna leik og Arnar tók leikhlé. Garðbæingar virðast hafa einhvers konar holublæti og eftir 10 leikmínútur var holan 10 stiga djúp, 28-18.

Það færir líkast til holublætisfólki fró að krafsa sig upp úr henni og Stjörnumenn voru ekki lengi að setjast upp á brúnina, tók þá nákvæmlega 3 mínútur og 4 sekúndur. Hinn þriðji ætlar sennilega að byrja að reyna á sig fyrr en áður í tilefni af úrslitakeppninni og með dyggri aðstoð Gabrovsek var munurinn allt í einu bara eitt stig, 32-31, og Finnur henti í leikhlé. Það hafði tilætluð áhrif og aftur sigu heimamenn framúr og komust mest 46-33 yfir. Þá leiddu Hinn þriðji og Gabrovsek sína menn aftur af stað upp eftir og Hinn þriðji sá til þess að munurinn var aðeins 6 stig, 49-43, í leikhléi. Heimamenn hittu mikið betur, ekki síst í þristum, settu 8 af 11 niður.

Sóknarleikur beggja liða gekk nokkuð smurt í þriðja leikhluta án þess þó að ástæða væri til að skammast mikið yfir varnarleik þeirra. Enn var það Hinn þriðji og Gabrovsek sem helst settu niður körfur fyrir gestina. Hilmar Smári veitti þeim þó kærkomna aðstoð við þá iðju, hann átti ágæta spretti í kvöld og kom sínum mönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum með þristi í stöðunni 62-63. Framlagið kom úr fleiri áttum hjá heimamönnum sem þykir almennt betra og í sameiningu svöruðu Valsmenn með 10-0 spretti. Pavel átti síðustu 3 stigin á flautunni í lok þriðja og heimamenn leiddu 72-63 fyrir lokaleikhlutann.

Enn og aftur lögðu Stjörnumenn af stað upp holuna fljótlega í fjórða leikhluta. Hilmar nýtti sér athyglina sem Hinn þriðji fékk frá Valsvörninni og minnkaði muninn í 74-68 með þristi þegar 8 mínútur lifðu leiks. Tveggja sókna leikur og það mátti láta sig dreyma um spennandi lokamínútur. Svo fór þó ekki, Valsmenn fundu alltaf svör sem komu frá hinum og þessum leikmönnum liðsins. Arnar tók leikhlé í stöðunni 86-76 þegar 3:37 voru eftir og lokaatlaga gestanna að hefjast. En atlagan hófst eiginlega aldrei, nánast var ekkert skorað næstu 1 og hálfu mínútuna og tíminn orðinn of naumur fyrir Stjörnupilta. Þeir reyndu munn-við-munn til að halda lífi í þessu og náðu að klóra í bakkann en sigur Valsmanna var í raun aldrei í hættu. Lokatölur 90-85 í góðum sigri heimamann sem var kannski svolítið öruggari en lokatölurnar gefa til kynna.

Menn leiksins

Valsarar spiluðu á 7 mönnum í kvöld og þegar þeir allir skila mjög fínu framlagi er það nóg. Til að nefna einhverja var Kári stigahæstur ásamt Pablo með 21 stig en Kári var framlagshæstur sinna manna. Pavel var svo með Pavels-legar tölur, 7 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar!

Hinn þriðji og Gabrovsek voru allt í öllu Stjörnumegin og Hilmar átti ágæta spretti. Aðrir leikmenn voru hins vegar út á túni og menn hljóta að mæta trylltir í leikinn á föstudaginn.

Kjarninn

Valsmenn virtust vera umtalsvert betri á löngum köflum í leiknum. Varnarleikurinn var mjög góður og þurfti oft galdrastykki frá Turner og Gabrovsek til að koma stigum að. Sóknarlega hlýtur líka frammistaðan í kvöld að vera með því besta sem sést hefur frá liðinu, í það minnsta var skotnýtingin frábær, 57% í þristum og 52% í tvistum. Samt var sigurinn alls ekki stór, aðeins 5 stig skildu að. Leikur 2 í Garðabænum verður því enginn göngutúr fyrir Valsmenn, Stjörnumenn munu selja sig dýrt og margir leikmenn þeirra hafa ýmislegt að sanna.

Eins og segir að ofan var munurinn aðeins 5 stig þegar allt kom til alls sem er eiginlega alveg ótrúlegt miðað við hversu fáir Stjörnumenn mættu til leiks í kvöld. Skotnýting liðsins var svona lala en hins vegar frábær hjá heimamönnum. Ef rýnt er í tölfræðina eru það kannski sóknarfráköstin sem héldu lífinu í gestunum – sem er gömul saga og ný. Betur má ef duga skal hjá Garðbæingum og á föstudaginn er nýr dagur og nýr leikur og við munum örugglega sjá grimmari og fjölmennari Stjörnumenn, ef svo má segja, í það skiptið.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Márus Björgvin)

Fréttir
- Auglýsing -