Álftanes og þjálfari þeirra í Bónus deild karla Kjartan Atli Kjartansson hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum, en samkvæmt tilkynningu félagsins er sú ákvörðun upphaflega komin frá Kjartani. Á meðan unnið er að því að finna nýjan aðalþjálfara mun Hjalti Þór Vilhjálmsson, aðstoðarþjálfari, taka við þjálfun liðsins.
Kjartan Atli tók við liðinu 2022 og kom liðinu á sínu fyrsta tímabili upp um deild í Bónus deildina. Þá tryggði liðið sig í fyrsta skipti inn í úrslitakeppnina á sínu fyrsta tímabili í efstu deild í fyrra þar sem þeir fóru alla leið í undanúrslitin. Þá fór liðið einnig í undanúrslit VÍS bikarkeppninnar á síðustu leiktíð.
Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður Álftaness: „Við virðum ákvörðun Kjartans Atla og óskum honum alls hins besta. Kjartan hefur náð framúrskarandi árangri með lið Álftaness síðan hann tók við. Stuðningsmenn, stjórn, meistaraflokksráð og bakhjarlar verða honum ævinlega þakklátir fyrir hans framlag í að festa Álftanes í sessi í efstu deild. Ástríða hans fyrir uppeldisfélaginu hefur gefið klúbbnum mikið og það verður seint þakkað. Hans framlag til uppbyggingar körfuboltastarfsins og samfélagsins á Álftanesi er ómetanlegt.“



