spot_img
HomeFréttirSkemmtun í Ásgarði sem lauk með Stjörnusigri

Skemmtun í Ásgarði sem lauk með Stjörnusigri

Leikur Stjörnunnar og Fjölnis í gærkvöldi var fjörugur og á köflum stútfullur af tilþrifum. Stjarnan var með yfirhöndina nánast frá byrjun en Fjölnismenn gerðu fjöldan allan af skemmtilegum áhlaupum og úr varð hin
mesta skemmtun fyrir áhorfendur. Leikmenn buðu upp á fimm fullorðins troðslur og fjöldan allan af skemmtilegum sendingum og gegnumbrotum. Að lokum stóðu heimamenn uppi sem sigurvegarar, lönduðu sigrinum nokkuð þægilega á lokamínútunum.
Leikurinn hófst fjörlega, losarabragur einkenndi varnarleik liðanna og tókst þeim að skora nokkuð auðveldlega á víxl. Mikið fór fyrir tröllinu eistneska, Renato Lindmets, á upphafsmínútunum. Hann splæsti í tvær alvöru
troðslur í fyrsta leikhluta, eina eftir skemmtilega hreyfingu á blokkinni og aðra úr hraðaupphlaupi. Honum tókst einnig að næla sér í tvær villur og náði hann aldrei að losa sig úr hinum margfrægu villuvandræðum,
óneitanlega eitthvað sem hafði áhrif á hans leik í gærkvöldi. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24 – 23 Stjörnunni í hag.
 
Í upphafi annars leikhluta var allt annar bragur á varnarleik liðanna, þó sérstaklega hjá heimamönnum sem hófu að skipta á öllum hindrunum. Við það riðlaðist sóknarleikur gestanna að vissu leyti. Klaufaskapur Garðbæinga á hinum endanum varð þó til þess að þeir náðu ekki að slíta sig almennilega frá spræku liði Fjölnis. Bæði lið fóru nokkuð djúpt á bekkinn í leikhlutanum og voru mennirnir sem inn á komu nokkra stund að komast í takt við leikinn. Sterkur varnarleikur Stjörnunnar skilaði þeim þó sjö stiga forystu inn í hálfleikinn, 44 -37 og vekur athygli að þeir fengu aðeins á sig 14 stig í leikhlutanum.
 
Örvar Kristjánsson virðist hafa blásið lífi í sína menn í hálfleik því hans drengir komu tvíefldir til leiks í þriðja leikhlutann. Þeir voru þó örlítið lengi af stað og virtist á upphafsmínútum leikhlutans að heimamenn
væru að ná upp almennilegu forskoti. Mestur varð munurinn 9 stig en í einni svipan náðu gestirnir að minnka hann niður í tvö stig og spenna farin að myndast í Ásgarði. Einhver neisti kviknaði þá í hjarta Stjörnumanna og fóru mikilvæg skot að detta.
 
Í upphafi fjórða leikhluta tókst loks heimamönnum að rífa sig lausa með 7-2 áhlaupi. Fór þar yngsti maður vallarins, Dagur Kár Jónsson, fyrir sínum mönnum. Dagur byrjaði á því að finna Jovan Zdravevski, galopinn og setti Jovan þristinn eins og hans er von og vísa. Stuttu síðar stal Dagur Kár boltanum við miðlínu vallarins og fann Keith Cothran sem brunaði upp völlinn og lyfti sér upp rétt fyrir innan vítalínuna, sveif að hringnum og
hamraði boltanum ofan í með þeim afleiðingum að hitastigið í Ásgarði hækkaði vel! Nathan Walkup svaraði svo með næstu körfu leiksins, var það rétt aðeins ódýrari en þó rándýr troðsla. Hlutverk Dags Kár var þarna
hvergi nærri lokið. Eftir langa og stranga sókn Stjörnunnar þar sem Guðjón Lárusson tók tvö sóknarfráköst, barst boltinn á Dag Kár sem setti niður virkilega mikilvægan þrist og kom muninum í fyrsta sinn yfir 10 stig.
Heimamenn náðu að halda þessu forskoti og lönduðu að lokum 8 stiga sigri. Lokamínúturnar voru þeim nokkuð þægilegar, kannski einum of, miðað við baráttu Fjölnismanna fyrstu þrjá leikhlutana.
 
Hjá gestunum voru erlendu leikmennirnir í nokkrum sérflokki. Nathan Walkup var þeirra stigahæstur með 27 stig og Calvin O‘Neal setti 16, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hann tapaði þó sjö boltum í leiknum og
átti í erfiðleikum gegn hinum feykiöfluga Keith Cothran sem pressaði O‘Neal allan völlinn. Arnþór Freyr Guðmundsson átti fínan leik fyrir Grafarvogsliðið, setti 12 stig, auk þess að gefa sex stoðsendingar og rífa
fimm fráköst. Arnþór hitti þó ekkert sérlega vel í leiknum, en þessi strákur hefur vaxið gríðarlega undir stjórn Örvars Kristjánssonar.
 
Heimamenn spiluðu skemmtilegan liðsbolta oft og tíðum. Þeir nýttu sér stærðar og styrktarmuninn virkilega vel í kvöld og fundu stóru strákana sína vel undir körfunni. Gaman var að fylgjast með Fannari Helgasyni sem
setti 13 stig og tók 8 fráköst, auk þess að eiga ógrinni af skemmtilegum baráttuatriðum. Keith Cothran spilaði frábæra vörn og bætti við 17 stigum, þar af tveimur stórglæsilegum troðslum. Justin Shouse stjórnaði leik sinna manna af fagmennsku. Lenti í örlitlum villuvandræðum en á meðan hann var inn á tikkaði Stjörnuvélin skemmtilega. 10 stoðsendingar, 8 fráköst og 7 stig eru tölur sem að leikstjórnendur í alvöru liðum geta splæst í. Shouse þurfti ekki að skora mikið í leiknum en gladdi þó augu viðstaddra með stórglæsilegu vinstrihandar sveifluskoti – eitthvað sem kappinn er orðinn þekktur fyrir.
 
Renato og Jovan gáfu liðinu frábærar mínútur, sá síðarnefndi er óðum að finna sitt gamla form. Marvin Valdimarsson spilaði einnig vel með 12 stig og 9 fráköst, Selfyssingurinn var verulega grimmur í kvöld. En senuþjófur kvöldsins var hinn ungi Dagur Kár Jónsson sem steig ekki feilspor í þær 15 mínútur sem hann lék. Skoraði 6 stig, stal þremur boltum og gaf þrjár stoðsendingar og átti sinn þátt í því áhlaupi sem skóp sigurinn.
 
 
Umfjöllun/ KAK 
Fréttir
- Auglýsing -