spot_img
HomeFréttirSkaut Blikum í úrvalsdeild með 39 stiga hita (Umfjöllun)

Skaut Blikum í úrvalsdeild með 39 stiga hita (Umfjöllun)

22:15
{mosimage}

(Blikar fögnuðu innilega í leikslok!) 

Rúnar Ingi Erlingsson gerði þau stig í kvöld sem tryggðu Breiðablik að nýju sæti í úrvalsdeild. Blikar léku síðast í úrvalsdeild leiktímabilið 2003-2004 og hafa síðan þá leikið í 1. deild. Rúnar Ingi gerði tvö síðustu stig leiksins af vítalínunni og tryggði Blikum sætan 64-62 sigur á Val í Smáranum í Kópavogi í kvöld. Rúnar gerði 3 stig í leiknum og öll komu þau af vítalínunni og hvert öðru mikilvægara. Pilturinn kallar ekki allt ömmu sína en hann lék með 39 stiga hita. Stigahæstur í liði Blika var Nemanja Sovic með 19 stig en Halldór Halldórsson átti fínan leik í teignum hjá heimamönnum með 7 stig og 17 fráköst. Hjá Val var Robert Hodgson atkvæðamestur með 12 stig.  

Lokatölur leiksins gefa skýra mynd af því hvað átti sér stað í Smáranum í kvöld. Liðin voru að verjast vel en þau voru einnig mistæk í sókninni. Blikar hófu leikinn í svæðisvörn og tók það gestina smá stund að átta sig á hlutunum. Blikar komust í 12-4 en þá tók Ragnar Gylfason til sinna ráða og minnkaði muninn í 18-15 með tveimur góðum þriggja stiga körfum en staðan var 18-17 fyrir Blika eftir upphafsleikhlutann. 

{mosimage}

(Rúnar Ingi Erlingsson gat fátt annað en brosað í leikslok) 

Nemanja Sovic var ekki að finna sig í fyrri hálfleik og við það kom nokkuð fát á sóknarleik Blika en hið sama var uppi í sókn gestanna svo lítið var skorað. Halldór Halldórsson kom Blikum í 29-26 með þriggja stiga körfu en þá rönkuðu Valsmenn við sér og leiddu í leikhléi 35-36 þar sem Rob Hodgson gerði síðustu körfu fyrri hálfleiks úr þriggja stiga skoti. 

Síðari hálfleikur var vægast sagt kaflaskiptur en Blikar unnu þriðja leikhluta 17-4. Valsmenn skoruðu sín fyrstu stig í leikhlutanum þegar fimm mínútur voru liðnar og Blikavörnin sýndi allar sínar bestu hliðar. Staðan var 52-40 fyrir fjórða leikhluta og stefndi allt í öruggan sigur heimamanna en annað kom á daginn. 

Halldór Halldórsson var að frákasta vel í liði Blika en það er nánast það eina jákvæða sem hægt er að segja um Blika í fjórða leikhluta því Valsmenn voru við stjórnvölin nánast allan leikhlutann. Rob Hodgson kom rauðum yfir 53-54 með góðum þrist og skömmu síðar virtust Valsmenn ætla að stela leiknum þegar Alexander Dungal kom gestunum í 57-62 og 2.20 mín til leiksloka.  

{mosimage}

(Loftur Einarsson til varnar gegn Rob Hodgson)

Heimamenn voru þó grimmir og náðu að jafna metin í 62-62 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Valsmönnum tókst ekki að skora í næstu sókn og heimamenn gerðu atlögu að körfunni og brotið á Rúnari Inga sem fékk tvö vítaskot þegar 7 sekúndur voru til leiksloka. Rúnari brást ekki bogalistin og staðan orðin 64-62 fyrir Blika. Valsmenn tóku leikhlé og náðu ekki að nýta þann tíma til að jafna metin eða stela sigrinum og sigur Blika því í höfn með tilheyrandi fagnaðarlátum. 

Blikar munu því leika í Iceland Express deildinni á næstu leiktíð en enn eru tvær umferðir eftir í 1. deild karla. Blikar hafa til þessa unnið 15 leiki og tapað einum en það dugir þeim til sigurs í deildinni og þurfa þeir því ekki að leika í úrslitakeppni 1. deildar.  

Tölfræði leiksins 

Við bendum á að hægt er að horfa á síðari hálfleik úr leik Breiðabliks og Vals í kvöld hér á útsendingarhluta Karfan.is en hnappinn er hægt að finna hér vinstra megin á síðunni. Það voru þeir Eggert Baldvinsson og Gísli Ólafsson sem lýstu leiknum í kvöld.

[email protected]

{mosimage}

(Jason Harden sækir að körfu Blika)

{mosimage}

(Halldór Halldórsson var grimmur í fráköstunum fyrir Blika í kvöld)

{mosimage}

(Sævar Sævarsson keyrir inn teiginn, Guðmundur Kristjánsson til varnar)

{mosimage}

(… og fagnaðarlæti héldu áfram í klefanum…)

Til hamingju Breiðablik með sæti í úrvalsdeild!

Fréttir
- Auglýsing -