Von er á miklum slag í TM-Höllinni í Keflavík í kvöld þegar heimakonur fá Skallagrím í heimsókn. Liðin eru jöfn með 36 stig í 2. sæti-3. sæti deildarinnar en Keflvíkingar hafa betur innbyrðis. Nýliðar Skallagríms þurfa 23 stiga sigur til þess að taka innbyrðisviðureign liðanna yfir í sínar hendur.
Keflavík vann fyrsta leikinn með 11 stiga mun og þann næsta með 13 stiga mun. Skallagrímur vann svo tveggja stiga sigur í Borgarnesi svo Keflavík á 22 stig á Skallagrím.
Leikur 1: Keflavík 81-70 Skallagrímur: Keflavík + 11
Leikur 2: Skallagrímur 55-68 Keflavík: Keflavík + 13 – total + 24 Keflavík
Leikur 3: Skallagrímur 71-69 Keflavík: Skallagrímur + 2 – total + 22 Keflavík
Leikur 4: Ef Skallagrímur ætlar að ná innbyrðisviðureign gegn Keflavík þurfa Borgnesingar 23 stiga sigur í kvöld.
Keflavík og Skallagrímur hafa bara tapað sex deildarleikjum til þessa og stærsta tap Keflavíkur í deildinni var sjö stiga ósigur gegn Snæfell í ársbyrjun. Að þessu sögðu er ljóst að Skallagrímur þarf að eiga skrímsli af leik til að vinna Keflavík með 23 stiga mun!



