spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaSkallagrímur tók öll völd í seinni hálfleik

Skallagrímur tók öll völd í seinni hálfleik

Hrunamenn og Skallagrímur áttust við á Flúðum að kvöldi bóndadags í keppni 1. deildar karla. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik þar sem Hrunamenn náðu ágætu forskoti en undir lok 2. fjórðungs náði Skallagrímur vopnum sínum og skoraði 14 sig gegn 2 stigum heimamanna og voru yfir í hálfleik þegar leikar stóðu 44-46.

Í seinni hálfleik hafði Skallagrímur undirtökin og í 4. leikhluta var eins og allur vindur væri úr Hrunamönnum. Leikurinn einkenndist nokkuð af mörgum villudómum þar sem ekki lá alltaf ljóst fyrir hvert leikbrotið væri. Heimamenn létu þetta trufla sig en gestirnir héldu ró sinni. Hrunamenn voru að elta forskotið og vildu ákaft jafna leikinn. Þá þarf sterkar taugar til þess að láta mótlæti ekki hafa áhrif á einbeitinguna og þær höfðu þeir ekki í þessum leik. Þeir léku boltanum stundum beint í hendur mótherjanna og af og til var eins og þeir misskildu hver annan þegar þeir ætluðu sér að senda boltann á milli sín. Chance Hunter fékk 2 tæknivillur dæmdar á sig í leiknum og Eyþór fyrirliði fór af velli með 5 villur.

Skallagrímur hafði að lokum 20 stiga sigur, 81-101. Darius Banks var bestur leikmanna Skallagríms. Björgvin Hafþór lék einnig vel og Marinó sömuleiðis. Nýr leikmaður Skallagríms, Nicolas Elame, skoraði 23 stig, flest í seinni hálfleik. Hjá heimamönnum var Chance Hunter atkvæðamestur með 40 stig og Aleksi Liukko skoraði 18 stig og tók 17 fráköst. Þeir léku báðir, a.m.k. framan af leiknum, reglulega vel fyrir lið Hrunamanna.

Í næstu umferð sem leikin verður eftir viku fær Skallagrímur Þróttara frá Vogum í heimsókn í Borgarnes en Hrunamenn mæta KR í Reykjavík.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -