spot_img
HomeFréttirSkallagrímur stakk Ármann af í seinni hálfleik

Skallagrímur stakk Ármann af í seinni hálfleik

Það var hörkuskemmtilegur leikur sem áhorfendur fengu að sjá í Fjósinu á föstudagskvöld þegar Ármenningar komu í heimsókn með Hvanneyringinn og fyrrum liðsmann Skallagríms, Andrés Kristjánsson fremstan meðal jafningja.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti beggja liða þó gæðin hafi ekki verið mikil körfuboltalega séð. Agalaus leikur þar sem menn drippluðu mikið í hringi og misstu boltann hvað eftir annað, ásamt því að taka léleg skot þar sem einstaklingsframtakið réði ríkjum. Ármenningar voru ívið grimmari en heimamenn og leiddu eftir fyrsta leikhluta 19-23. Þar taldi sóknarfráköst gestanna sem fengu oftar en ekki tvær tilraunir í hverri sókn. J.R Cadet leikmaður heimamanna frá Bahama-eyjum hafði sig lítið frammi og setti aðeins 3 stig.

Finnur Jónsson þjálfari Skallagríms var ekkert að spara röddina í lok 1. leikhluta og lét menn heyra það að hann var allt annað en ánægður með leik sinna manna. 

Annar leikhluti byrjaði á sama brölti og sá fyrsti, Ármenningar héldu áfram að taka sín sóknarfráköst og leiddu leikhlutann til að byrja með. Þá ákvað Finnur þjálfari að breyta yfir í 2-3 svæðisvörn sem heimamenn spiluðu af mikilli ákefð, stálu fullt af boltum og neyddu gestina í léleg skot fyrir utan þriggjastiga línuna. Heimamenn áttu gott áhlaup og unnu leikhlutann 34-16 og leiddu því í hálfleik 53-39.

Ármenningar voru ákveðnir í að láta finna fyrir sér strax í seinni hálfleik. Spiluðu mjög fast á heimamenn og fengu að gera það frá dómurum leiksins. Eitthvað fór þetta í skapið á Sigtryggi Arnari sem fékk tæknivillu í kjölfarið á þristi sem hann setti niður, og settist hann á bekkinn. Í kjölfarið tók J.R Cadet tvær troðslur með frábærum undirbúningi frá Atla Aðalsteinssyni sem kveikti heldur betur í áhorfendum í Fjósinu. Þá var komið að Sigtryggi að loka sýningunni, setti niður 11 sig í röð og formsatriði fyrir heimamenn að klára leikinn. Staðan eftir 3. Leikhluta 85-62.

Síðasti leikhluti var samt sem áður frábær skemmtun fyrir áhorfendur, 360° troðsla og sirkustroðsla þar sem Atli kastaði boltanum í gólfið J.R Cadet tróð honum viðstöðulaust gladdi augað. Einnig komu inn ungir og efnilegir leikmenn hjá báðum liðum. Arnar Smári Bjarnason minnti einna helst á sig og setti niður 7 stig fyrir heimamenn og spilaði frábæra vörn. Lokatölur 124-82.

Í liði heimamanna voru Cadet, Sigtryggur Arnar og Atli frábærir. Hafþór Gunnarsson er gríðarlega mikilvægur liðinu sem er mjög ungt og hann er frábær í að binda þetta lið saman. Davíð Ásgeirs átti mjög mikilvægar körfur þegar illa gekk hjá liðinu að skora og á hann eftir að vera mikilvægur í vetur ásamt því að vera frábær varnarmaður.

Ármenningum verður að hrósa, en þeir leika án erlends leikmanns og eru þeir mjög líkamlega sterkir sem olli Skallagrímsmönnum miklum vandræðum á löngum köflum, sérstaklega undir körfunni. Eru með reyndan þjálfara í Tómasi Hermannsyni sem átti töluvert erfitt með að vinna með dómurum leiksins, en það má enginn vanmeta Ármenninga.

Tölfræði leiksins

Næsti leikur Skallagríms er gegn Þór Akureyri , 6 nóvember.

Myndir/ Ómar
Umfjöllun/ Bjarni

 

Fréttir
- Auglýsing -