spot_img
HomeFréttirSkallagrímur sótti sigur í DHL-höllina

Skallagrímur sótti sigur í DHL-höllina

KR og Skallagrímur áttust við í DHL-höllinni í dag í 1. deild kvenna. Fyrir leikinn munaði tveimur stigum á liðunum sem sátu í tveimur efstu sætunum deildarinnar. Skildi þar að leikur liðanna í Borgarnesi í 1. umferð þar sem Skallagrímur fór með 27 stiga sigur af hólmi. 

Jafnt var á með liðunum í byrjun fyrsta leikhluta og staðan 8-9 eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Þá spýttu Skallagrímsstúlkur í lófana og náðu góðum leikkafla þar sem þær settu tólf stig á móti þremur stigum KR og voru komnar með 10 stiga forystu eftir miðjan leikhlutann í stöðunni 11-21. Þrátt fyrir mikla baráttu KR og áhlaup þeirra á forskot gestanna, lét Skallagrímur forystuna aldrei af hendi og sigraði með 14 stigum, 64-78. 
    
Skallagrímur spilaði stóran hluta leiksins án Erikku Banks sem fór meidd af velli þegar 7 mínútur voru liðnar af honum. Þær sitja sem fastast á toppi 1. deildar kvenna með 10 stig eftir 5 leiki og á eftir þeim fylgja KR og Breiðablik með 6 stig.  
 
Kristrún Sigurjónsdóttir átti góðan leik fyrir Skallagrím, setti 26 stig og tók 10 fráköst. Sólrún Sæmundsdóttir reyndist gömlu liðsfélögum sínum í KR erfið, skoraði 20 stig og tók 6 fráköst. Í liði KR var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir allt í öllu, skoraði 31 stig og tók 15 fráköst. Perla Jóhannsdóttir átti góðan sprett fyrir KR í fjórða leikhluta og setti 10 stig á þriggja mínútna kafla, áður en hún þurfti að setjast á bekkinn með 5 villur.

Stigaskor KR: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 31 stig/15 fráköst, Perla Jóhannsdóttir 12 stig, Kristbjörg Pálsdóttir 5 stig/5 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 5 stig/4 fráköst, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 4 stig, Rannveig Ólafsdóttir 4 stig, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 2 stig, Ásta Júlía Grímsdóttir 1 stig/5 fráköst, Veronika Sesselju-Lárusdóttir 0 stig, Margrét Blöndal 0 stig, Marín Matthildur Jónsdóttir 0 stig, Ástrós Lena Ægisdóttir 0 stig.   

Stigaskor Skallagríms: Kristrún Sigurjónsdóttir 26 stig/10 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 20 stig/7 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 13 stig, Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir 5 stig/9 fráköst, Þórkatla Dagný Þórarinsdóttir 5 stig, Erikka Banks 5 stig/5 fráköst, Edda Bára Árnadóttir 4 stig, Melkorka Sól Pétursdóttir 0 stig, Arna Hrönn Ámundadóttir 0 stig. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Mynd: Kristrún Sigurjónsdóttir leiddi lið Skallagríms í stigaskori, fráköstum og stoðsendingum í dag. 

Fréttir
- Auglýsing -