spot_img
HomeFréttirSkallagrímur slapp með skrekkinn!

Skallagrímur slapp með skrekkinn!

Keflavík nálægt því að vinna upp 17 stiga mun í 4. leiklhuta.

Skallagrímur gerði góða ferð í Blue Höllina í kvöld þegar liðið lagði Keflavík í ótrúlega kaflaskiptum leik þar sem heimakonur rönkuðu ekki við sér fyrr en í síðasta fjórðungi eftir að hafa verið mest 24 stigum undir í leiknum. Lokatölur 70-75 þar sem Keira Robinson átti frábæran leik fyrir Borgnesinga sem hafa nú komið sér einar fyrir í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Keflvíkingum. 

Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í 4. og 5. sæti deildarinnar með 4 stig. Keflvíkingar steinlágu fyrir Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í síðustu umferð á meðan Borgnesingar biðu lægri hut fyrir KR-ingum í Fjósinu. Bæði lið voru því vel hungruð í stigin tvö sem í boði voru og ætluðu sér að komast aftur á sigurbraut.

Byrjunarlið Keflavíkur: 

Þóranna Kika – Salbjörg Sævars – Katla Garðars – Emelía Ósk – Daniela Wallen

Byrjunarlið Skallagríms: 

Sigrún Sjöfn – Emelie Hesseldal – Keira Robinson – Maja Michalska – Árnína Lena

Það var jafnræði með liðunum fyrstu þrjár mínúturnar í fyrsta leikhluta þar sem þau skiptust systurlega á körfum. Gestirnir tóku þó frumkvæðið um miðbik leikhlutans og leiddu 10-16 áður en heimakonur tóku leikhlé. Emelie Hesseldal skoraði 6 af fyrstu 10 stigum gestanna og var truflandi með langar hendur sínar í mörgum skotum í vörninni. Keflvíkingar byrjuðu í sinni hefðbundnu pressu allan völlinn og tókst að ná mörgum lausum boltum með ákefðinni. Þeim gekk þó fáránlega illa að klára færin sín og skutu hreint afleitlega í leikhlutanum og voru 4/23 (17%) í skottilranum eftir 10 mínútna leik. Staðan 10-21 fyrir gestina. 

Anna Ingunn Svansdóttir kom af bekknum og setti fyrsta þrist heimakvenna í leiknum í byrjun fyrsta leikhuta í áttundu tilraun liðsins og í kjölfarið fór Emelía Ósk og sótti körfu og vítaskot að auki. Útlit fyrir að heimakonur væru að mögulega að vakna til lífsins. á þessum tímapunkti en Borgnesingar, með téða Emelie Hesseldal og Keira Robinson í broddi fylkingar, voru ekki á þeim buxunum og héldu sinni 11 stiga forystu þegar 2. leikhluti var hálfnaður. Staðan 20-31 þegar 5 mínútur voru eftir. Daniela Wallen kom aftur inná í liði Keflavíkur eftir nokkurra mínútna setu og setti þrist sem reynsluboltinn Sigrún Sjöfn svaraði jafnóðum hinum megin. Nokkuð lýsandi fyrir fyrri hálfleikinn þar sem Keflavík var alltaf 2-3 skrefum á eftir gestunum og náðu ekki að tengja saman sókn og vörn. Keira og Emelie voru aftur á móti að tengja vel við hvor aðra og það var hreint ljúfmeti að horfa á Keiru Robinson setja yfirvegaða “no-look aftur fyrir bak” gólfsendingu” í hendurnar á liðsfélaga sínum með eftirnafnið Hesseldal sem þakkaði pent fyrir sig og sallaði niður þristinum. 19 stig í fyrri hálfleik frá Dananum dagfarsprúða!  Borgnesingar með öll tök á leiknum og leiddu með 15 stigum í hálfleik, 28-43.

Sigrún Sjöfn opnaði seinni hálfleikinn á þriggja stiga körfu og Keira Robinson kom svo muninum í 20 stig með vel kláruðu sniðskoti í umferðarteppu. 28-48 og stuðningsmenn Keflavíkur farnir að ókyrrast í stúkunni. Keflavíkurliðið var pikkfast í lausagangi, náðu ekki upp neinni stemmningu í vörninni og sóknarleikurinn staður, óáræðinn og hugmyndasnauður. Borgnesingar leiddu 35-59 þegar 4 mínútur voru eftir af leikhlutanum leiddar af Keira Robinson sem raðaði niður körfunum í öllum regnbogans litum fyrir gestina á meðan hinir leikmenn liðsins börðust sem einn varnarmegin. Staðan eftir 3. leikhluta 46-63 og Skallagrímur í toppmálum fyrir lokaleikhlutann og ekkert útlit fyrir keflvíska mótspyrnu.

Enginn skyldi þó afskrifa Keflavík á heimavelli því eins og töfraryki væri sáldrað yfir liðið á milli leikhluta kviknaði á þeim og hóf liðið leikhlutann á  8-0 áhlaupi þar sem Anna Ingunn og Emelía Ósk settu niður sitt hvorn þristinn. Þegar grjóthörð Keflavíkurvörnin neyddi svo gestina til að klára skotklukkuna sína í næstu sókn á eftir létu viðbrögðin í húsinu ekki á sér standa og mætti halda að 20mm hljóðheldu gleri hefði verið lyft af áhorfendastúkunni sem tók að kyrja taktföst hvatningaróp af mikilli ákefð. Staðan allt í einu 52-63 og Keflvíkingar komnir með blóð á tennurnar. Áfram hélt Keflavík að þjarma að gestunum sem létu stressið fara með sig, lykilmenn ýmist hurfu eða urðu litlir í sér og munurinn varð minni og minni með hverri sókninni. Anna Ingunn setti svo risastóran þrist fyrir Keflavík þegar 2 mínútur lifðu leiks til að minnka muninn í 4 stig, 65-69, og spennan þrúgandi í Blue Höllinni. Daniella Wallen minnkaði svo muninn í 67-69 með gegnumbroti en nær komust heimakonur ekki. Keflvavíkurkonur fóru illa að ráði sínu í síðustu sóknunum og gáfu svo rándýr sóknarfráköst á ögurstundu á meðan Borgnesingar eyddu leikklukkunn og kláruðu leikinn á vítalínunni. Lokatölur 70-75. 

Af hverju vann Skallagrímur?

Að vera töluvert betri aðilinn í 30 mínútur dugði gestunum í kvöld eins og það hefði í raun átt að gera í hvaða leik sem er, svona teorískt. Þéttur varnarleikur, þolinmæði og skilvirkni í sókninni skiluðu gestunum góðu og sanngjörnu forskoti gegn litlausu Keflavíkurliði lungan úr leiknum. Körfubolti er þó leikur þar sem ekkert er í hendi fyrr en lófanum er lokað og þegar lið heimsækja Keflavík má búast við því að hann haldist opinn eitthvað fram eftir kvöldi. Áhlaup Keflvíkinga var stöngin út í þetta skiptið þótt ekki hafi munað meiru en einu skoti til eða frá þegar hæst lét. Keflavíkurliðið var við frostmark í skotnýtingu lengi vel, ekki bara fyrir utan þriggja stiga línuna heldur voru leikmönnum mislagðar hendur í góðum færum í teignum líka. Það reyndist banabiti þeirra í kvöld.

Bestar á vellinum

Keira Robinson var maður leiksins. Mjög góð í fyrri hálfleiknum en tók svo yfir í þriðja leikhlutanum þar sem hún spilaði sem andsetin á Hrekkjavökunni. Algjörlega í essinu sínu á báðum endum vallarins. Dró liðið síðasta spölin þegar neyðin var mest og setti svo dýrmæt víti á ögustundu. 29 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar, 5 stolnir boltar auk þess að fiska 15 villur. 

Emelie Hessendal. Þvílíkur fyrri hálfleikur. Driffjöður liðsins í sókn og vörn fyrstu 20 mínútur leiksins. Leikurinn sogaðist að henni og gaf hún liðinu mikið sjálfstraust. Opnaðist mikið fyrir aðra leikmenn í kjölfarið. Týndist alveg í 4. leikhluta en náði í mikilvæg sóknarfráköst í lokasóknum leiksins til að tryggja sigurinn.  19 stig, 12 fráköst, 5 stoðsendingar, 3 stolnir, 2 varin skot. Dejligt!

Sigrún Sjöfn Ámundardóttir átti fínan leik. Sigrún setti alla sína þrjá þrista þegar Keflavík virtist ætla að keyra sig í gang í fyrstu þremur leikhlutunum til þess eins að slökkva í þeim aftur. Mikilvæg augnablik til að viðhalda forystunni. Alltaf baráttuglöð. 11 stig og 10 fráköst.

Hjá  Keflavík var Danielle Wallen atkæðamest með 25 stig, 10 fráköst, 5 stolnir og 4 stoðsendingar. Danielle tókst þó ekki að vera sá yfirburðarleikmaður sem Keflavík þurfti á að halda lengstan part leiksins og t.a.m. var hún aðeins með 33% skotnýtingu og 6 tapaða bolta. Fór illa að ráði sínu þegar mest reyndi á í lokin eftir að hafa vaxið eftir því sem leið á leikinn. Á mikið inni m.v. frammistöðuna í kvöld en það má einnig segja um aðra lykilmenn liðsins. 

Anna Ingunn Svansdóttir, hér eftir þekkt sem “Örbylgjuofninn”. Anna lét rigna í hvert sinn sem hún kom af bekknum og með hreinum ólíkindum að Jón Halldór skildi taka hana tímabundið af velli í 4. leikhluta þegar stemmningin var í hæstu hæðum í áhlaupi heimakvenna. Sú eina í liði Keflavíkur sem skaut vel í kvöld og hefði mátt fá að njóta trausts í lengri lotum í kvöld að mati blaðamanns. 15 stig, 3 fráköst og 5/8 í þriggja stiga skotum á 19 mínútum. 

Úrslitin þýða að…

Skallagrímur situr eitt liða í 4. sæti deildarinnar með 8 stig en Keflavík er í því 5. með 6 stig og hafa tapað tveimur leikjum í röð. Næst tekur Skallagrímur á móti Breiðablik þann 6. nóvember og Keflavík heimsækir Grindavík sama kvöld.

Umfjöllun / Sigurður Friðrik Gunnarsson

Myndir / Skúli Sigurðsson – Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -