spot_img
HomeFréttirSkallagrímur sigraði í spennuleik í Grindavík

Skallagrímur sigraði í spennuleik í Grindavík

7:22

{mosimage}

Borgnesingar gerðu góða ferð suður með sjó í kvöld þegar þeir unnu heimamenn í Grindavík með 84 stigum gegn 83.

 

Leikurinn var jafn framan af og skiptust liðin á því að hafa forystuna. Hendur leikmanna voru einkar mislægar þessar fyrstu mínutur leiksins, enda mikilvægur leikur fyrir bæði lið og leikmenn eflaust stressaðir. Það var mikið um stuttar sóknir hjá báðum liðum og oft á tíðum virtist sem að það væri búið að líma fyrir körfuhringinn, ekki vildi boltinn niður. Staðan eftir fyrsta leikhluta var þó 19-20, gestunum í vil.

 

Grindvíkingar hófu 2. leikhluta á góðri pressuvörn sem Borgnesingar réðu lítið við. Gestirnir töpuðu hverjum boltanum á fætur öðrum og Grindvíkingar sigu hægt og bítandi fram úr. Heimamenn komust í 29-23 en Pétur Már og Jovan Zdravevski jöfnuðu með tveimur góðum körfum. Bæði lið voru að tapa mikið af boltum og mun meiri áhersla var á varnarleik beggja liða frá síðustu leikjum þess. Staðan í hálfleik var 42-41 í miklum baráttuleik.

Jonathan Griffin, leikmaður Grindvíkinga, tók sig á í byrjun seinni hálfleiks og fór að reynast Skallagrímsmönnum erfiður. Hann setti hverja körfuna á fætur annarri, en þökk sé frábærri baráttu Darrels Flake undir körfunni þá misstu gestirnir ekki Grindvíkinga of langt frá sér og eftir 3. leikhluta var staðan 60-58 fyrir heimamenn.

 

Hafþór Ingi hefur 3. leikhlutann á að jafna leikinn með laglegu gegnumbroti. Vörn Skallagríms styrktist til muna, og ljóst var að Valur Ingimundarson hafði lesið yfir hausamótunum á sínum mönnum í hléinu. Pétur Már kemur Skallagrím í 64-68 og Pálmi Þór Sævarsson fiskar ruðning á Calvin Clemmons. Í kjölfarið fylltust gestirnir frekari baráttuanda og ekki spillti fyrir stuðningurinn sem að þeir fengu frá þeim fjölmörgu stuðningsmönnum sem komu alla leið úr Borgarnesi á leikinn. Darrel Flake klárar svo góða hreyfingu með tveimur stigum og kemur Skallagrím 6 stigum yfir, 64-70. Þeir Páll Axel og Þorleifur Ólafsson voru þó ekki af baki dottnir og komu Grindvíkingum aftur inn í leikinn, 68-70.

 

Þá var komið að þætti Darrels Flake, en hann skoraði hreinlega í hverri einustu sókn fyrir Skallagrím. Borgnesingar náðu þó ekki að nýta sér meðbyrinn því að heimamenn voru aldrei langt undan. Vendipunkturinn í leiknum var þó þegar Jovan Zdravevski átti frábært gegnumbrot og fékk vítaskot í kjölfarið. Jovan setti vítið niður og kom gestunum 3 stigum yfir, 81-84 þegar 28 sekúndur voru eftir. Jonathan  Griffin gafst hinsvegar ekki upp og setti niður tvö skot af vítalínunni og minnkaði muninn í 1 stig, 83-84. Grindvíkingar sendu svo Jovan á vítalínuna þe þegar 7 sek voru eftir og viti menn, Jovan misnotaði bæði vítaskotin. Grindvíkingar brunuðu þá í sókn en urðu fyrir því ólani að stíga útaf, og Skallagrímsmenn fengu boltan á ný. Ekki tókst þeim þó að halda honum lengi og misstu hann nærri því samstundis útaf aftur, og Grindvíkingar höfðu 1.4 sekúndu til þess að klára leikinn. Jonathan Griffin fékk það veigamikla hlutverk að taka seinasta skotið, hann kom sér í ágætis færi en ekki vildi boltinn niður og Borgnesingar unnu frækinn sigur, 83-84.

Í heildina var þessi leikur frábær skemmtun, spenna allt frá upphafi til enda. Sigurinn féll með Skallagrímsmönnum í þetta skiptið, en svona leikir geta farið á hvorn veginn sem er. Leikurinn var þó langt frá því að vera vel leikinn sóknarlega, en leikmenn beggja liða gerðu sæg af mistökum í sókninni.

 

Stigahæsti maður Skallagríms í leiknum var Darrel Flake með 27 stig, en hann tók sömuleiðis 22 fráköst var liðinu feykilega mikilvægur í kvöld. Jovan Zdravevski skoraði 25 stig í kvöld, og Dimitar Karadzovski skoraði 15. Aðrir leikmenn liðsins höfðu sig hægt frammi í sókninni en skiluðu varnarhlutverkinu aftur á móti vel.

Jonathan Griffin var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld með 25 stig, en honum næstur kom Páll Axel Vilbergsson með 24.

 

Tölfræði leiksins

 

www.skallagrimur.org

 

Mynd: www.skallagrimur.org

Fréttir
- Auglýsing -