spot_img
HomeFréttirSkallagrímur lagði Snæfell í háspennuleik (Umfjöllun)

Skallagrímur lagði Snæfell í háspennuleik (Umfjöllun)

7:05

{mosimage}

Það ríkti mikil stemming hjá þeim liðlega 500 manns sem sátu á pöllunum í Borgarnesi í gærkvöld þegar nágrannarnir í Snæfell komu í heimsókn. Var þetta 29 viðureign liðana síðan 1991 en skv. heimildum síðunnar þá höfðu liðin unnið jafn marga leiki eða 14 fyrir leikinn.

 

Leikurinn byrjaði fremur rólega og voru okkar menn að spila ágætis sóknarbolta á tíðum. Vörnin var þó eitthvað á reiki, en Hólmarar voru ekki að hitta vel. Milojica Zekovic var fremstu meðal jafningja hjá okkar mönnum og setti niður góðar körfur einnig skoraði Pétur Már tvær mikilvægar þriggja stiga körfur. Hjá Snæfell fór Justin Shouse mikinn sem og Sigurður Þorvaldsson. Staðað að loknum fyrsta leikhluta var 21-15 fyrir Skallagrím.

Segja má í stuttu máli að annar leikhluti var eign Hólmara. Þeir kaffærðu slakri svæðisvörn Skallagríms með hverjum þriggja stiga körfunni á fætur annarri. Justin Shouse setti fjórar og Sigurður Þorvaldsson tvær. Á kafla virtist sem svo að okkar menn hefðu játað sig sigraða. Mest fór munurinn í 16 stig en undir lok leikhlutans náðu okkar menn örlítið að klóra í bakkann. Hálfleikstölur voru 37-50 fyrir Snæfell.

Greinileg batamerki voru á leik okkar manna í þriðja leikhluta, enda hafði Webb þjáfari látið sína menn finna fyrir heitu tevatninu í hálfleik. Endurkoma Skallagrímsmanna hófst fyrir alvöru um miðjan leikhluta og voru það Hafþór Ingi, Axel og Allan Fall sem drógu vagninn. Ánægjulegt var að sjá baráttuna í okkar mönnum og sýndi Hafþór mikinn dugnað með framgöngu sinni þrátt fyrir vænt höfuðhögg sem hann hlaut frá Hólmara einum. Hólmarar héldu þó forystunni að loknum þriðja leikhluta með fjórum stigum, 62-66. Flesti áhorfendur gerðu sér grein fyrir því, meðan Indriði las upp lottótölur kvöldsins, að mikil dramatík væri í aðsigi. Hólmarar voru naumlega yfir framan af leikhlutanum þrátt fyrir mikið áhlaup okkar manna. Stíflan brast þó um miðjan leikhluta er Allan Fall jafnaði leikinn með fallegum og mjög svo mikilvægum körfum. Staðan var þó orðin 70-68 fyrir okkar menn og fimm mínútur eftir af leiknum.

Geof Kotila gat ekki annað gert á þessum tímapunkti en að taka leikhlé til að ná mönnum sínum inn í leikinn að nýju. Hafþór Gunnarsson lét ekki deigan síga eftir leikhléið og setti niður stóran þrist, Shouse minnti á sig með tveimur stigum hjá Hólmurum (73-70) en Zeko fylgdi fordæmi Hafþórs og bætti við öðrum þrist, 76-70. Þá upphófst mikil spenna hjá öllum viðstöddum; leikmönnum, þjálfurum, dómurum og áhorfendum. Villurnar tóku að hrannast upp setti Sigurður Þorvaldsson fjögur víti niður, 76-74. Áttu þá Skallagrímsmenn sókn eftir fjórða víti Sigurðar og brá Hafþór á það ráð, fullur sjálfstraust, og tók langan “miðbæjarþrist” (langt fyrir utan) sem endaði sem hin glæsilegasta stoðsending á Darrel Flake, sem þakkaði pent fyrir framtak Haffa með góðu sniðskoti og skoti að auki, 79-74.

Dramatíkin tók völdin á síðustu mínútum leiksins. Menn tóku þó að fjúka útaf með fimm villur og fóru þeir Hlynur Bæringsson, Axel Kárason og Hafþór Gunnarsson á tréverkið. Shouse setur tvö víti niður en Zeko skorar í næstu sókna og kemur okkar mönnum í vænlega stöðu, 81-76. Strax í næstu sókn náði Justin Shouse að skora körfu góða og náði að setja vítið niður, 81-79. Boltinn var of heitur í höndum okkar manna og misstu þeir boltan til Hólmara og var brotið á Sigurði Þorvaldssyni. Fékk hann gullið tækifæri til að jafna leikinn, en misnotaði fyrra skotið.

{mosimage}

Náði hann að stetja það seinna niður og staðan því 81-80. Þetta urðu síðustu stig leiksins. Bæði lið fengu tækifæri síðustu mínútu leiksin til að ganga frá leiknum en allt kom fyrir ekki þrátt fyrir hetjulega tilraun Justin Shouse á síðustu sekúndunum, þökk sé frábærri vörn Pálma Sævarssonar. Mikil gleði greip um sig meðal stuðningsmanna Borgnesinga og ætlaði þakið að rifna af húsinu. Leikurinn stóð heldur betur undir væntingum og vantaði ekki upp á dramatíkina.

Hjá Snæfellingum stóð Justin Shouse uppúr og fór hann á kostum í sóknarleik þeirra og skoraði hann 31 stig, ekki má gera lítið úr varnarleik Hlyn Bæringssonar og reif hann niður hvert frákastið á fætur öðru og endaði hann með 17 fráköst og 10 stig. Hjá Borgnesingum var það útlendingasveitin sem að hélt sóknarleiknum uppi en Zeko var með 21 stig, Fall 19 og Flake 12. Einnig steig Hafþór upp á mikilvægum stundum og dreif lið sitt áfram af mikilli eljusemi. Axel Kárason var drjúgur og setti niður góðar körfur ásamt því að taka mikilvæg fráköst. Pálmi og Pétur skiluðu sínu að vanda og var Pálmi eins og klettur í hafi þegar Justin Shouse brotlenti á honum í lok leiksins.

Fleiri myndir má finna hér.

Tölfræði leiksins

Myndir og texti: www.skallagrimur.org

Fréttir
- Auglýsing -