spot_img
HomeFréttirSkallagrímur hefndi fyrir bikartapið í Keflavík

Skallagrímur hefndi fyrir bikartapið í Keflavík

 

Skallagrímur sigraði Keflavík í fyrsta leik undanúrslita Dominos deildar kvenna, 68-70. Skallagrímur því komnar með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en það lið sem vinnur 3 leiki fer í úrslitin og mætir annað hvort Snæfell eða Stjörnunni.

 

Fyrir leik

Liðin höfðu mæst í 5 skipti áður í vetur. Í þeim leikjum hafði Keflavík haft sigur í 4 þeirra, þar á meðal sigruðu þær Skallagrím í úrslitaleik bikarkeppninnar.

 

 

 

Gangur leiks:

Keflavík leiddi nánast allan fyrri hálfleik leiksins. Eftir fyrsta leikhluta var Keflavík 5 stigum yfir, 17-12, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn sá sami, 35-30. Atkvæðamestar í þessum fyrri hálfleik voru Birna Valgerður Benónýsdóttir með 7 stig, 5 fráköst og 2 stoðsendingar fyrir heimastúlkur, en Tavelyn Tillman fyrir Skallagrím með 11 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins hótaði Keflavík ítrekað að stinga gestina af. Þegar að þriðji leikhlutinn var hálfnaður leiddu þær með 8 stigum 45-38. Skallagrímskonur gerðu vel að koma til baka og koma í veg fyrir að missa þennan frá sér. Þegar að þriðji er á enda leiða heimastúlkur þó enn, 53-50.

 

 

Lokamínúturnar

Skallagrímur nær að jafna leikinn á fyrstu mínútum fjórða leikhlutans, 53-53. Í framhaldinu ná þær svo að komast yfir, mest 4 stigum, en þegar að leikhlutinn er hálfnaður eru þær 2 stigum yfir 59-61. Undir lokin fer svo í gang æðisgenginn eltingaleikur. Þar sem að Keflavík eltir Skallagrím. Keflavík aldrei meira en og oftast einni körfu frá þeim. 

 

Í stöðunni 68-69, með um 15 sekúndur eftir af leiknum, fær Emelía Ósk Gunnarsdóttir kjörið tækifæri til þess að koma Keflavík yfir með frekar opnu þriggja stiga skoti. Það geigar þó. Keflavík brýtur á Tavelyn, sem setur annað vítið sitt og Keflavík fer í sókn. Þegar 4 sekúndur eru eftir brjóta Skallagrímskonur (áttu villu að gefa) á Keflavík. Keflavík tekur boltann inn á Ariana Moorer sem keyrir að körfunni, klikkar á skotinu og engin villa er dæmd. Skallagrímur því búið að landa sigri.

 

 

6%

Erlendur leikmaður Keflavíkur, Ariana Moorer, spilaði líklega sinn versta leik fyrir Keflavík síðan hún kom til þeirra í dag. Var heillum horfin. Af þeim 15 skotum sem hún tók í leiknum fór aðeins 1 þeirra rétta leið. Var því með 6% skotnýtingu í leiknum. 

 

 

Reynslan

Mikilvægustu leikmenn Skallagríms, þær Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Tavelyn Tillman, gerðu virkilega vel í að halda sér inni á vellinum í leik kvöldsins. Spiluðu báðar bróðurpart fjórða leikhlutans á fjórum villum og voru báðar enn inni á þegar að leik lauk. Gríðarlega mikilvægt fyrir Skallagrím, en það hefði verið mjög erfitt fyrir þær að sigra þennan leik ef bara önnur þeirra hefði flogið útaf á þessum síðustu mínútum.

 

Að vera yfir þegar leik lýkur

Keflavík var yfir meira en minna í leik kvöldsins, mest með 9 stigum. Skallagrímur hinsvegar leiddi leikinn mest með 4 stigum og gera virkilega vel í að halda aftur af áhlaupi heimastúlkna í lokin. Sjaldan eða aldrei hefur setningin að það skipti einungis máli hver er yfir þegar leik lýkur átt betur við.

 

 

Hetjan

Tavelyn Tillman var potturinn og pannan í þessum sigri Skallagríms. Skoraði 33 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

 

 

Tölfæði leiks

Myndasafn

 

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir, viðtöl / SBS

Fréttir
- Auglýsing -