spot_img
HomeFréttirSkallagrímur hársbreidd frá deildarmeistaratitlinum

Skallagrímur hársbreidd frá deildarmeistaratitlinum

Skallagrímur vann í kvöld sinn fimmtánda leik í 1. deild kvenna er liðið lagði KR 56-62 í DHL-Höllinni. Með þessu þarf Skallagrímur aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér endanlega deildarmeistaratitilinn.

Okkur á Karfan.is varð það á í messunni í morgun að kasta því fram að Skallagrímur gæti orðið deildarmeistari með sigri í kvöld en okkur yfirsást að Njarðvíkingar höfðu aðeins leikið 12 deildarleiki og ættu því enn 16 stig eftir í pottinum en 16 stig skilja að Njarðvík og Skallagrím í dag. Njarðvík þarf því að vinna alla leiki sína sem eftir eru og þar á meðal Skallagrím með 41 stigs mun eða meira og treysta því að Skallagrímur tapi öllum sínum fjórum leikjum sem eftir eru. 

 

En að leik kvöldsins því hann var bæði jafn og spennandi í Vesturbænum þar sem Borgnesingar héldu út og unnu nauman 56-62 útisigur þar sem Manuel Angel Rodriguez Escudero þjálfari Skallagríms fylgdist með af áhorfendapöllum þar sem hann tók út leikbann. Í fjarveru hans hélt Signý Hermannsdóttir um stjórnartaumana.

 

Toppliðið opnaði með hvell og leiddu 12-20 eftir fyrsta leikhluta, heimakonur eitthvað smeykar því Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir gerði 7 af 12 fyrstu stigum KR, hún er víst ekkert fyrir það að vera smeyk. 

 

Annar leikhluti var allur annar og betri hjá KR, fjölbreyttara framlag fór að koma sóknarmegin þar sem skotin hjá Perlu Jóhannsdóttur fóru að detta niður. Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir átti einnig góðar rispur hjá KR en Skallagrímur leiddi 32-33 í hálfleik. Sólrún Sæmundsdóttir var með 9 stig í hálfleik í liði Skallagríms en Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir var búin að hlaða í tvennu í fyrri hálfleik með 13 stig og 12 fráköst í liði KR. 

 

Borgnesingar mættu með læti inn í síðari hálfleik og pressuðu hátt á KR en náðu ekki að stinga af þar sem Perla Jóhannsdóttir hélt heimakonum við efnið með mikilvægum og vel tímasettum þriggja stiga skotum. Skallagrímur leiddi 46-52 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. 

 

KR var með þær Perlu og Ingibjörgu Yrsu í villuvandræðum í upphafi fjórða leikhluta og þá small vörn Skallagríms vel því heimakonur skoruðu ekki stig í lokaleikhlutanum fyrr en fjórar mínútur voru til leiksloka. Í stöðunni 52-56 fyrir Skallagrím misnotaði KR tvö víti og eitt þriggja stiga skot og hefðu þessi skot ratað rétta leið er aldrei að vita nema Borgnesingar hefðu þurft að kyngja sínum öðrum tapleik á tímabilinu. Skallagrímur hélt út, 56-62, þar sem Sólrún Sæmundsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir voru við stjórnvölin. Guðrún Ósk Ámundadóttir gerði 10 stig og gaf 6 stoðsendingar og þá átti Hanna Þráinsdóttir einnig góðan dag í liði Skallagríms með 6 stig og 9 fráköst en þær stöllur Ka-Deidre J. Simmons og Erikka Banks afrekuðu að gera heil 9 stig saman í leiknum á samtals 39,6 mínútum sem er ansi dræmt vinnuframlag hjá atvinnumönnunum. 

 

Eins og áður greinir þarf Skallagrímur aðeins einn deildarsigur í viðbót til þess að verða deildarmeistari en það þýðir að þær fá heimaleikjaréttinn í úrslitum. Í úrslitum mætast lið nr. 1 og lið nr. 2 í deildarkeppninni og það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í Domino´s-deild kvenna á næstu leiktíð. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn – Bára Dröfn

Umfjöllun – Jón Björn 

Fréttir
- Auglýsing -