spot_img
HomeFréttirSkallagrímur áfram í Maltbikarnum eftir sigur á Fjölni

Skallagrímur áfram í Maltbikarnum eftir sigur á Fjölni

Fyrsti leikur 16-liða úrslita Maltbikarkeppni kvenna fór fram í Dalhúsum í kvöld þegar 1. deildar lið Fjölnis tók á móti Domino‘s deildar liði Skallagríms. Liðin buðu upp á jafnan leik framan af en í síðari hálfleik byrjaði að draga í sundur með liðunum og lauk honum með 18 stiga sigri Skallagríms, 69-87.

Carmen Tyson-Thomas var sjóðheit fyrir Skallagrím í upphafi leiks og skoraði 9 af fyrstu 13 stigum liðsins en á hinum endanum var það Berglind Karen Ingvarsdóttir sem sá að mestu um stigaskorið og setti 11 af fyrstu 13 stigum Fjölnis. Þrátt fyrir að hafa verið skrefinu á undan mest allan fyrri hálfleik, þá gekk Borgnesingum illa að hrista Fjölni af sér og leiddu gestirnir í hálfleik með 5 stigum, 33-38.

Skallagrímur herti á vörninni strax í upphafi þriðja leikhluta og uppskráu þær eftir því. Margrét Ósk Einarsdóttir skoraði fyrstu stig Fjölnis í síðari hálfleik þegar rúmar 7 mínútur voru liðnar af honum og höfðu Borgnesingar þá náð að auka forystu sína úr 5 stigum í hálfleik í 29 stig í stöðunni 33-62. Fjölnisstúlkur komu til baka í lok þriðja fjórðungs og þeim fjórða, en munurinn á liðunum var einfaldlega orðinn of mikill til að Fjölnir næði að brúa bilið. Skallagrímur fór með sigur að hólmi og tryggði sér þar með sæti í 8-liða úrslitum Maltbikarsins.

Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest Skallagríms með 29 stig, 15 fráköst og 4 stoðsendingar og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 26 stig, tók 7 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Hjá Fjölni var McCalle Feller atkvæðamest með 19 stig og 7 fráköst og Berglind Karen Ingvarsdóttir skoraði 20 stig og tók 5 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn leiks

Fréttir
- Auglýsing -