ÍA og Fjölnir mættust í kvöld í öðrum leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar. Fjölnismenn leiddu einvígið 1-0 eftir sigur á sínum heimavelli en nú var spilað á Akranesi.
Liðin mættust eðli málsins samkvæmt tvisvar í deildinni og unnu þar sinn leikinn hvort, bæði á heimavelli. Tölfræðin var því með ÍA fyrir leikinn auk þess sem ÍA vann síðustu 5 heimaleiki sína í deildinni.
Leikurinn fór virkilega rólega af stað, heimamenn skoruðu fyrstu körfuna eftir rúmar tvær mínútur en gestirnir jöfnuðu strax. Þegar fyrsti leikhlutinn var rúmlega hálfnaður var staðan enn 2-2 en liðin tóku aðeins við sér í seinnihluta fjórðungsins og staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18:14 fyrir ÍA.
Annar leikhluti fór nánast eins af stað nema hvað nú tók það ÍA 3 mínútur að skora fyrstu körfuna og líkt og í fyrsta leikhluta fylgdi karfa frá Fjölni í kjölfarið. Fjölnismenn hresstust þá aðeins og söxuðu forskot ÍA niður 2 stig um miðan annan leikhluta en þá gáfu heimamenn aftur í og leiddu í hálfleik 35-23. Það verður að segjast að fyrri hálfleikur einkenndist af góðum varnarleik og lélegum sóknarleik, líkt og tölurnar gefa til kynna.
Sóknarleik liðanna óx aðeins ássmegin í síðari hálfleik en ÍA hélt nánast alltaf um 10 stiga forystu og Fjölnismenn voru alltaf að elta og að loknum þriðja leikhluta var staðan 52-43 fyrir ÍA.
Fjölnismenn mættu svo ákveðnari í fjórða og síðasta leikhlutann, minnkuðu muninn jafnt og þétt en ÍA náði alltaf að lauma inn einni og einni körfu en þegar um hálf mínúta lifði leiks var munurinn kominn niður í 1 stig, 69-68. Þá tók við æsilegur kafli, ÍA setti niður 2ja stiga körfu og Fjölnismenn fóru svo á vítalínuna, hittu seinna skotinu þegar um 2 sekúntur voru eftir og staða 71-69. Fjölnismenn brutu strax þegar 1 sekúnda var eftir, ÍA klúrðarði báðum vítaskotunum og lokaskot Fjölnis yfir allan völlinn geygaði og 2ja stiga sigur ÍA staðreynd og einvígið orðið jafnt 1-1.
Fannar Helgason fór fyrir sínum mönnum í kvöld, var stigahæstur með 22 stig auk þess að taka 10 fráköst – enn ein tvennan þar á bæ. Collin Pryor var stigahæstur í liði Fjölnis með 16 stig og setti einnig tvennu því hann bætti við 14 fráköstum.
Tölfræði leiksins
Þessi tvö lið eru nokkuð ólík og það lið sem nær að spila hvað næst sínum leik vinnur. Fjölnismenn hafa hitt mjög vel úr 3ja stiga skotum sínum í vetur en ekki voru þeir að setja 3ja stiga skotin niður í kvöld því einugis 3 af 21 þriggja stiga skotum liðsins fóru niður sem er ekki nógu gott í 2ja stiga tapi. Að sama skapi var 2ja stiga nýting ÍA ekki alveg í stíl við þeirra bestu getu en liðið hitti aðeins 14 af 45 tveggja stiga skotum sínum. Það má því segja að ÍA hafi unnið leikinn í vörninni en Fjölnismenn töpuðu boltanum alls 20 sinnum í leiknum á meðan ÍA tapaði 10 boltum.
Nú fá liðin tveggja daga frí en leikur 3 er á dagskár í Dalhúsum í Grafarvogi á mánudaginn 4. apríl kl. 19:15 og það er ljóst að liðin mætast einnig á Akranesi fimmtudaginn 7. apríl kl. 19:15. Þannig að við getum öll látið okkur hlakka til næstu viku.
Það ber að lofa áhorfendur leiksins, jafnt heimamenn sem og gestina en rúmlega 400 mann voru á Vesturgötunni og stemmning eftir því. Takk allir fyrir að gera góðan leik betri!
Texti: HGH
Mynd: Jónas H. Ottósson – Steinar Aronsson kom sterkur inn af bekknum í kvöld.



