spot_img
HomeFréttirSkagamenn upp í 5. sætið – Afmælisbarnið Watson fór á kostum

Skagamenn upp í 5. sætið – Afmælisbarnið Watson fór á kostum

Gulklæddir Skagamenn tóku á móti grænklæddum Kópavogsbúum á Akranesi í kvöld í næst síðustu umferð 1. deildar. Mikið var undir þar sem bæði lið eiga möguleika á síðasta sætinu sem gefur rétt til þess að spila í úrslitakeppni 1. deildar um laust sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.
 
 
Blikar stóðu betur að vígi fyrir leikinn, voru í 5. sæti tveimur stigum á undan Skagamönnum og voru með góða stöðu í innbirðisviðureignum liðanna eftir 88-65 sigur í fyrri leiknum. Blikar gátu því tryggt sæti sitt í úrslitakeppninni með sigri en skagamenn þurftu að vinna með minnst 23ja stiga mun til að komast upp fyrir Breiðablik fyrir loka umferðina.
 
Leikurinn fór rólega af stað en heimamenn, sem léku án leikstjórnandans reynda Traust Jónssonar, reyndu að halda uppi hröðum leik og ætluðu sér greinilega að ná upp forystu strax í upphafi. Breiðablik var hinsvegar ekki á því að leifa þeim það og svörðu fyrir sig með góðum þriggja stiga körfum og eftir 1. leikhluta leiddu heimamenn með 23 stigum gegn 17.
 
Heimamenn héldu svo uppteknum hætti og spiluð mjög vel á meðan gestirnir úr Kópavogi misstu taktinn og þegar flautað var til hálfleiks leiddu skagamenn með 51 stigi gegn 35 stigum gestanna.
 
Í síðari hálfleik var það sama upp á teningnum og eftir góðan sóknarleik ÍA í 3. leikhluta var staðan orðin nokkuð þægileg fyrir þá en þeir unnu leikhlutann með 8 stigum og staðan fyrir loka leikhlutan því 81 – 57 og munurinn orðinn 24 stig og ÍA á leiðinni að taka 5. sætið af Breiðabliki. Svo fór að lokum að skagamenn skildu gestina úr Kópavogi eftir með sárt ennið og urðu lokatölur leiksins 109 – 81.
 
Heimamenn sýndu mjög góðan leik bæði vörn og sókn og mörg skemmtileg tilþrif litu dagsins ljós á meðan gestirnir áttu í vandræðum jafnt varnarlega sem sóknarlega og virkuðu oft hugmyndasnauðir og hittu greinilega ekki á sinn besta dag. Hjá heima var Terrence Watson með risa leik, skoraði 44 stig, tók 15 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og varði 2 skot. Einnig átti Áskell Jónsson flottan leik með 21 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst og Birkir Guðjónsson sett niður 15 stig.
 
Hjá Breiðablik var Atli Örn Gunnarsson stigahæstur með 17 stig, Ágúst Orrason skoraði 13, Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 12. Greinilegt var að Þorsteinn Gunnlaugsson er ekki alveg búinn að jafna sig á meiðslunum sem hafa haldið honum frá vellinum síðustu tvo leiki en hann skoraði 9 stig í leiknum og tók flest fráköst blika í leiknum eða 9 talsins.
 
Það er því ljóst að ÍA dugar að sigra Ármenninga í síðustu umferð á meðan Breiðablik þurfa að vinna Hött á útivelli og treysta á að skagamenn tapi í íþróttahúsi Kennaraháskólans, í baráttu liðanna um sæti í úrslitakeppni 1. deildar þetta tímabilið. Það er því spennandi loka umferð framunda þar sem nánast er ómögulegt að spá hvaða liða koma til með að mæta hverjum. T.d. geta 3 lið verið jöfn að stigum í 2. – 4. sæti. Það eina sem er öruggt er að þetta ræðst allt saman föstudaginn 9. mars.
 
Mynd/ Kolbrún Ingvarsdóttir– Afmælisbarnið Watson fór mikin í kvöld, hér treður hann fyrir Skagamenn í nágrannaslag gegn Skallagrím fyrr á tímabilinu.

Umfjöllun/ Hannibal Hauksson 
Fréttir
- Auglýsing -