Skagamenn léku í gærkvöld sinn fyrsta heimaleik í 1. deild karla þetta tímabilið þegar Vængir Júpters komu í heimsókn. Hlutskipti liðanna úr fyrstu tveimur umferðum deildarinnar var ójafnt, ÍA ósigraðir á meðan Vængirnir höfðu tapað báðum sínum leikjum.
Umfjöllun af heimasíðu ÍA:
Til að gera langa sögu stutta breyttist hlutskipti liðann ekki að leik loknum þar sem heimamenn voru sterkari allan leikinn. Eftir að gestirnir úr Grafarvogi höfðu komist í 0-4 tóku heimamenn við sér, skoruðu 10 stig í röð og leiddu að loknum fyrsta leikhluta 28-17. Í öðrum leikhluta var öllu meira jafnræði með liðunum en Vængir Júpiters komust aldrei nær skagamönnum en 7 stig og svo fór að staðan í hálfleik var 55-43 fyrir heimamenn.
Skagamenn mættu einbeittir inn í þriðja leikhluta og settu á köflum upp sýningu inn á vellinum, áhorfendum til mikillar gleði, en gaman er að geta þess að vel var mætt í braggann í kvöld. Að loknum þriðja leikhluta höfðu heimamenn bætt við stigaskor sitt 37 stigum en gestirnir 23. Það var því formsatriði að klára loka fjórðunninn og svo fór að heimamenn lönduðu 110-90 sigri og 6 stig, eða fullt hús, í deildinni staðreynd.
Zachary Jamarco Warren átti enn einn stórleikinn og skoraði 43 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst, mögnuð frammistaða þar. Áskell skoraði 20 stig, gaf 5 stoðsendingar og stal amk. 4 boltum, auk þess að blokka tvö skot sem einnig flokkast undir magnaða frammistöðu. Frákastahæstur var svo Ómar með heil 14 fráköst – vel gert það.
Hjá gestunum, og nýliðum deildarinnar, var Sindri Már með 32 stig, Brynjar Þór 17 stig og 8 fráköst og Árni Þór með 15 stig.



