spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaSkagamenn lönduðu sigri eftir góða endurkomu

Skagamenn lönduðu sigri eftir góða endurkomu

Í gær fór fram leikur ÍA gegn Þrótti Vogum í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum og var þetta fyrsti heimaleikur ÍA á nýju ári. Að lokinni leikmannakynningu risu allir viðstaddir úr sætum og vottuðu Ragnari B. Sigurðssyni virðingu sína með veglegu lófaklappi. Ragnar lést þann 29. desember sl. eftir erfið veikindi, þá rétt nýlega sextugur að aldri.

Raggi Sig var einn af máttarstólpum körfuboltans á Akranesi og stóð þar vaktina í rúm 20 ára frá 1980 – 2000. Ekki var það svo að Raggi hafi sjálfur verið mikill körfuboltaiðkandi, en sem íþróttaeldhugi var hann sannur afreksmaður. Hann var alla sína tíð dyggur stuðningsmaður Körfuknattleiksfélags ÍA og iðulega nefndur guðfaðir körfuboltans á Skaganum. Blessuð sé minning hans og hafi hann eilífa þökk fyrir.

Nokkuð var í húfi fyrir Skagamenn sem með sigri gátu jafnað Þrótt að stigum í deildinni. Það voru hins vegar gestirnir frá Vogum sem byrjuðu leikinn mun betur, voru léttleikandi og skoruðu körfur í öllum regnbogans litum. Að sama skapi byrjuð Skagamenn flatir, vörnin slök og hittnin léleg. Staðan var 20 – 4 fyrir Þrótt eftir um fimm mínútna leik. Skagamenn náðu smám saman að klóra sig inn í leikinn aftur og var staða í hálfleik 46 – 51.

Í byrjun seinni hálfleiks snérist dæmið algjörlega við þar sem Skagamenn mættu grimmir til leiks og voru komnir yfir 54 – 53 eftir um tveggja mínútna leik í seinni hálfleik. Eftir það var leikurinn eins og góður hnefaleika bardagi þar sem liðin skiptust á að ná eins til tveggja stiga forskoti. Í byrjun fjórða leikhluta var staðan hnífjöfn 69 – 69 og hélst þetta jafnræði allt fram á loka mínútu leiksins. Þá urðu þáttaskil í leiknum þegar Lucien Christofis keyrði upp að körfu Þróttar og kom Skagamönnum í 89 – 84. Magnús Traustason leikmaður Þróttar var mjög ósáttur við þetta, fannst Lucien hafa gefið sér olnbogaskot og mótmælti kröftuglega við annan dómara leiksins, uppskar hann tvær tæknivillur og var vísað úr húsi. Skagamenn lokuðu leiknum á vítalínunni og uppskáru sigur 94 – 87 í fjörugum og spennandi leik.

Stigahæstir ÍA
A. Coleman 34 stig (13 frák), Srdan Stojanovic 19 stig, Styrmir Jónasson 15 og Lucien Christofis 12.

Stigahæstir Þróttur Vogum
Arnaldur Grímsson 22 stig, Magnús Traustason 15, Jón Arnór Sverrisson 11 (10 stoðs. og 9 frák.)

Liðin eru nú bæði með 14 stig í deildinni. Skagamenn eiga erfitt verkefni fyrir höndum þar sem þeir eiga útileik við Sindra á meðan Þróttur Vogum á heimaleik gegn Ármann í næstu umferð.  

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Jón Þór Þórðarson

Fréttir
- Auglýsing -