Stjarnan vann sinn sjöunda leik í röð í Bónus deildinni í kvöld er liðið lagði ÍR nokkuð örugglega í Skógarseli, 109-118.
Fyrir leik
Á einhverjum tímapunkti litu þessi tvö lið á sig sem erkifjendur. Í hámæli fór það líklega í kringum úrslitakeppnina fyrir sjö árum, en síðan þá hefur orkan örlítið dvínað. ÍR fallið, Stjarnan orðið Íslandsmeistari og fleira þar frameftir götunum sem hefur kannski komið í veg fyrir að liðin væru að spila á sama grundvelli.
Gengi liðanna nokkuð ólíkt það sem af er tímabili. ÍR þurft að berjast fyrir sigrum allar götur á meðan Stjarnan byrjaði illa, en hafa á síðustu vikum verið að sækja í sig veðrið. Meira segja svo að það er varla til sá málsmetandi aðili sem segir þá ekki hvað líklegasta til að hampa þeim stóra aftur í vor.
Gangur leiks
Stjarnan nær góðu áhlaupi á fyrstu mínútum annars fjórðungs og eru komnir þægilegum 10 stigum yfir þegar 8 mínútur eru til hálfleiks, 29-39. Heimamenn gerðu nokkuð vel undir lok að halda í við Stjörnuna, en voru þó 13 stigum undir þegar liðin héldu til búningsherbergja, 54-67.
Jacob Falko stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum með 19 stig á meðan Hilmar Smári var með 14 stig fyrir Stjörnuna.
Leikur kvöldsins fór virkilega fjörlega af stað. Stjarnan þó í bílstjórasætinu og ÍR að elta. Mikið ýgi í Hilmari Smára þessar fyrstu mínútur leiksins, en eftir fyrsta fjórðungur endar 25-28 fyrir gestina úr Garðabæ.
Alveg hægt að færa rök fyrir því að Stjarnan hafi kálað leiknum í þriðja leikhlutanum. Halda áfram að skora (að er virðist) að vild á meðan sóknarleikur heimamanna virðist alls ekki vera á sama kalíberi. Stjarnan komin í 98 stig eftir fyrstu 30 mínútur leiksins á móti aðeins 79 stigum heimamanna.
Áhlaup heimamanna í lokaleikhlutanum var nokkuð gott. Hægt en nokkuð örugglega vinna þeir niður muninn sem er aðeins 6 stig þegar tæp 1 mínúta er eftir, 107-113. Nær komast þeir þó ekki, Stjarnan heldur þetta út og vinnur að lokum nokkuð öruggan sigur, sem þeir þó þurftu aðeins að hafa fyrir í lokin, 109-118.
Kjarninn
Það var ótrúlega lítið spennandi við þennan leik. Stjarnan var betri aðilinn á öllum sviðum íþróttarinnar í kvöld. Ef ekki hefði verið fyrir ágætis nýtingu heimamanna úr djúpinu og orku í fjórða leikhlutanum hefði þetta orðið enn verra.Kannski lítið sem kom á óvart. Hópur Stjörnunnar gífurlega vel mannaður og liðið á mestu sigurgöngu liða Bónus deildarinnar þessa dagana, komnir með sjö í röð.
Stigahæstir
Jacob Falko var stórkostlegur fyrir ÍR í kvöld með 39 stig. Fyrir Stjörnuna var stigahæstur Hilmar Smári Henningsson með 26 stig.
Hvað svo?
ÍR leikur næst komandi fimmtudag gegn Ármann í Laugardalshöll, en Stjarnan degi seinna, næsta föstudag, gegn Tindastóli heima í Garðabæ.
Myndasafn (væntanlegt)



