Hildur Sigurðardóttir varð frá að víkja á dögunum þegar Snæfell lagði Hauka í Iceland Express deild kvenna en þetta var fyrsti deildarleikur Snæfells eftir bikarúrslitin gegn Njarðvík. Í leiknum gegn Haukum meiddist Hildur á fæti um miðbik þriðja leikhluta og var borin af velli.
Karfan.is náði eldsnöggu tali af Inga Þór þjálfara Snæfells og sagði hann að á morgun myndi Hildur reyna að vera með á æfingu liðsins. ,,Hún hefur fengið frábæra meðferð síðan á fimmtudag og er sjálf mjög einbeitt í því að ná leiknum á miðvikudag," sagði Ingi en þá mætast Snæfell og KR í DHL-Höllinni í vesturbænum og þessi lið berjast hart um sæti í úrslitakeppninni.
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson – Hildur fær aðhlynningu í leiknum gegn Haukum fyrr í vikunni.



