spot_img
HomeFréttirSjálfstraustið lekur af KR-ingum sem pökkuðu Stjörnunni saman

Sjálfstraustið lekur af KR-ingum sem pökkuðu Stjörnunni saman

 
Sannfærandi, afar sannfærandi hjá KR í kvöld er þeir tóku 1-0 forystu gegn Stjörnunni í úrslitaeinvígi Iceland Epxress deildar karla. Lokatölur í þessari fyrstu viðureign liðanna voru 108-78 KR í vil þar sem Brynjar Þór Björnsson skilaði inn 28 stigum, þar af 6 þristum en röndóttir voru heitir fyrir utan í kvöld, settu niður 16 af 29 þristum í leiknum, 55,1% þriggja stiga nýting. Hrafn Kristjánsson getur brosað breitt um þessar mundir enda hollningin á KR í skrímslaflokki og lánshæfismat vesturbæinga í töffarabankanum með mesta móti.
Stjörnumönnum tókst að gera þetta að leik fyrstu 20 mínúturnar í kvöld en í síðari hálfleik voru þeir skyldir eftir í reyk KR-inga þar sem engu máli skipti hvern Hrafn setti inn á völlinn, allir skiluðu og það í fjarveru Fannars Ólafssonar vegna meiðsla!
 
Hreggviður Magnússon byrjaði vel fyrir KR í fjarveru Fannars Ólafssonar í kvöld. Hreggviður kom KR á blað með þrist og átti eftir að láta vel fyrir sér finna í fyrsta leikhluta en hann gerði 10 af 15 fyrstu stigum KR í leiknum sem leiddu 15-9 eftir tæpar fyrstu fimm mínútur leiksins.
 
KR komst í 21-9 gegn hriplekri vörn gestanna en Stjörnumenn tóku loks við sér, Guðjón Lárusson kom inn af bekknum með fína baráttu í liði gestanna en það var Justin Shouse sem fann sig vel þessar fyrstu tíu mínútur leiksins, var með 11 stig eftir fyrsta leikhluta og Stjarnan náði að minnka muninn í 27-25 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta hluta. Varnarleikurinn svona nokkuð fjarverandi á báða bóga en leikurinn hraður þó villurnar væru þegar byrjaðar að hrannast upp.
 
Vesturbæingar voru ekkert að tvínóna við hlutina í upphafi annars leikhluta, Pavel opnaði með þrist, Hreggviður bætti einum við og Brynjar Þór kýldi niður þann þriðja og staðan 36-25 fyrir KR í fyrstu augnablikum annars leikhluta. Vörn gestanna mátti sín lítils úti á velli gegn KR-ingum sem fundu opin skot með litlum erfiðismun. KR gekk á öllum fimm í sókninni á meðan Garðbæingar dældu boltanum mikið inn á Lindmets og það gaf oftar en ekki ágætlega.
 
Daníel Guðni klóraði í bakkann með þrist fyrir Stjörnuna, 47-41 og Justin Shouse setti niður annan þegar fjórar sekúndur voru til hálfleiks og minnkaði muninn í 53-48. Brynjar Þór átti þó lokaorðið fyrir KR, brunaði upp völlinn og setti erfiðan flautuþrist við mikinn fögnuð heimamanna og staðan 56-48 KR í vil í hálfleik.
 
Brynjar Þór var með 17 stig hjá KR í hálfleik og Hreggviður Magnússon 13 en Justin Shouse var með 16 stig og Renato Lindmets 15 hjá Stjörnunni. KR-ingar settu niður 8 af 13 þristum sínum í fyrri hálfleik og í þeim síðari biðu þeirra átta til viðbótar. Alls voru flautaðar 32 villur í fyrri hálfleik og fyrirséð að einhverjir myndu lenda í bullandi vandræðum í þeim síðari og tveir þegar komnir út á ystu nöf í fyrri, Skarphéðinn Ingason og Jovan Zdravevski báðir komnir með fjórar.
 
Brynjar Þór var límdur á Justin Shouse í síðari hálfleik rétt eins og undir lok þess fyrri, KR-ingar vildu boltann greinilega úr höndum Shouse sem var beittur í fyrri hálfleik. Áfram áttu Garðbæingar í vandræðum með að dekka KR-inga fyrir utan og þeir sköpuðu sér mörg opin og góð skotfæri.

 
Jovan Zdravevski hafði verið lengst af þriðja leikhluta á bekknum og náði að malda í móinn með þrist og staðan 77-64 en KR-ingar voru í gírnum, Marcus Walker svaraði bara í sömu mynt á hinum enda vallarins og KR leiddi 87-66 eftir þriðja leikhluta sem þeir unnu 31-18. Fantagóður leikhluti vesturbæinga sem höfðu algera stjórn á leiknum í síðari hálfleik.
 
Garðbæingar fengu grimma KR-inga í fangið í kvöld en það afsakar ekki frammistöðu liðsins í fjórða leikhluta en þar skoruðu þeir ekki stig í næstum því sjö mínútur! Ólafur Aron Ingvason gerði tvö fyrstu stig gestanna í fjórða leikhluta þegar 3.37 mín. voru eftir, þar á undan höfðu KR-ingar verið með sýningu þar sem Ágúst Angantýsson átti skemmtilegar rispur.
 
Þrátt fyrir töluverðan villufjölda í kvöld hættu KR-ingar aldrei að leika stífa vörn og það var banabiti Garðbæinga í kvöld. Þeir áttu ekki púður í síðari hálfleik til að brjóta sig aftur inn í leikinn á meðan heimamenn léku á als oddi. Sannfærandi sigur þar sem Brynjar Þór Björnsson var fremstur á meðal jafningja en heilt yfir verður að hrósa KR liðinu þar sem hver einn og einast leikmaður liðsins kom með gott framlag í kvöld. Justin Shouse, eins og í öðrum leikjum liðanna í vetur, var atkvæðamestur hjá Stjörnunni með 19 stig og 6 stoðsendingar.
 
Liðin mætast aftur á fimmtudagskvöld og þá í Garðabæ og vissara fyrir Teit Örlygsson og Snorra Örn Arnaldsson að kokka fram einhverja snilli því andstæðingar Stjörnunnar eru á miklu skriði.
 
Heildarskor:
 
KR: Brynjar Þór Björnsson 28/4 fráköst, Marcus Walker 23, Hreggviður Magnússon 16/5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 10/4 fráköst/4 varin skot, Pavel Ermolinskij 10/9 fráköst/7 stoðsendingar, Ágúst Angantýsson 6/8 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 6/8 fráköst, Martin Hermannsson 3, Ólafur Már Ægisson 3, Skarphéðinn Freyr Ingason 3, Fannar Ólafsson 0, Páll Fannar Helgason 0.
 
Stjarnan: Justin Shouse 19/6 stoðsendingar, Renato Lindmets 18/7 fráköst, Guðjón Lárusson 12/8 fráköst, Jovan Zdravevski 11/4 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 5/4 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 4, Fannar Freyr Helgason 4/4 fráköst, Dagur Kár Jónsson 3, Ólafur Aron Ingvason 2, Marvin Valdimarsson 0, Magnús Guðmundsson 0, Christopher Sófus Cannon 0.
 
Byrjunarliðin:
 
KR: Pavel Ermolinskij, Marcus Walker, Brynjar Þór Björnsson, Hreggviður Magnússon og Finnur Atli Magnússon.
 
Stjarnan: Justin Shouse, Daníel Guðmundsson, Jovan Zdravevski, Renato Lindmets og Fannar Freyr Helgason.
 
Dómarar leiksins: Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson
Eftirlitsmaður: Lárus Ingi Magnússon
 
Myndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]
 
Texti/ Jón Björn Ólafsson[email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -