spot_img
HomeFréttirSilas yngri hafði góð áhrif á Bobcats - Pistons lögðu Lakers

Silas yngri hafði góð áhrif á Bobcats – Pistons lögðu Lakers

Sex leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt og dró það helst til tíðinda að Charlotte Bobcats skyldu vinna leik. Það hafðist gegn Orlando Magic og Bobcats tóku við sér þegar þjálfara liðsins var fleygt út úr húsi! Þá höfðu Detroit Pistons betur gegn LA Lakers þar sem Kobe Bryant bauð upp á ótrúlega lélega ákvörðun í viðleitni sinni til að koma leiknum í framlengingu, svo bregðast víst krosstré sem önnur tré.
Úrslit næturinnar:

Charlotte 100-84 Orlando
Paul Silas þjálfara Bobcats var hent út úr húsi eftir samskipti sín við dómara leiksins og við stjórn liðsins tók sonur hans Steven Silas. Orlando var með um 20 stiga forystu þegar Silas eldri var hent út en leikmenn Bobcats tóku þá við sér og kláruðu dæmið 100-84! Corey Maggette gerði 29 stig og tók 7 fráköst í liði Bobcats en hjá Orlando var Dwight Howard með 15 stig og 17 fráköst. Spurning hvort Bobcats láti ekki Silas yngri taka við liðinu og sendi gamla kallinn í frí. Þetta var fimmti sigur Bobcats á tímabilinu sem eru langneðstir á austurströndinni og hafa tapað 31 leik.
 
Indiana 96-101 Atlanta
Josh Smith fór fyrir Atlanta með 27 stig og 9 fráköst en hjá Indiana var David West með 24 stig.
 
Boston 97-92 Houston
Paul Pierce gerði 30 stig og tók 6 fráköst í liði Boston og Rajon Rondo bætti við 9 stigum og 12 stoðsendingum. Hjá Houston voru aðeins átta leikmenn á skýrslu og sex þeirra skoruðu 11 stig eða meira í leiknum. Atkvæðamestir í liði gestanna voru Argentínumaðurinn Luis Scola og Kyle Lowry báðir með 18 stig.
 
Miami 108-78 New Jersey
LeBron James daðraði við þrennuna með 21 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Chris Bosh bætti svo við 20 stigum en hjá New Jersey var Deron Williams með 16 stig.
 
Detroit 88-85 LA Lakers
Rodney Stuckey fór fyrir Piston með 34 stig en hjá Lakers var Andrew Bynum með tröllatvennu, 30 stig og 14 fráköst. Kobe Bryant og leikmaðurinn fyrrum þekktur sem Ron Artest eða Metta World Peace fengu báðir þrista í lokin til að koma leiknum í framlengingu en þristurinn frá Kobe var ótrúlega illa ígrundaður og fer í flokk verstu lokaskota leikmannsins á ferlinum, amk. í verstu ákvarðanaskúffuna hans…þ.e.a.s. inni á vellinum.
 
Dallas 95-85 New York
Amar´e Stoudemire var stigahæstur hjá Knicks með 26 stig og 7 fráköst en hjá Dallas var Dirk Nowitzki með 28 stig.
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -