spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSigvaldi að semja við lið á Spáni

Sigvaldi að semja við lið á Spáni

Íslendingar eru við það að eignast nýjan atvinnumann í körfubolta en hinn ungi og efnilegi Sigvaldi Eggertsson mun semja við lið erlendis á næstu dögum. Þetta staðfesti Sigvaldi í samtali við Körfuna fyrr í dag. 

 

Liðið sem um ræðir er Monbus Obradoiro CAB sem er staðsett í Santiago de Compostela. Sigvaldi verður þar með liðsfélagi Tryggva Snæs Hlinasonar sem er á láni hjá félaginu frá Valencia á komandi leiktíð. Samkvæmt Sigvalda er honum helst ætlað að leika með B-liði félagsins sem leikur í neðri deildum Spánar. 

 

"Þetta var tækifæri sem var erfitt að hafna" sagði Sigvaldi við Körfuna í dag. Hann sagðist eiga eftir að skrifa formlega undir samninginn en annað væri klárt. Sigvaldi sagði að möguleikar væru fyrir hendi að æfa með aðalliði liðsins sem leikur í ACB deildinni. 

 

Sigvaldi Eggertsson átti frábært tímabil hjá Fjölni með 19,2 stig að meðaltali í leik og 6,2 fráköst. Hann skaut yfir 35% frá þriggja stiga línunni auk þess að stela 1,2 boltum í leik. Sigvaldi var valinn besti ungi leikmaður 1. deildar karla og einnig í úrvalsliði deildarinnar á síðustu leiktíð.

 

Fyrr í sumar hafði Sigvaldi samið við ÍR um að leika með liðinu í Dominos deild karla en nú er ljóst að ekkert verður úr því. Það er nokkur skellur fyrir Breiðhyltinga sem ætla sér að gera enn betur en á síðasta tímabili. 

Fréttir
- Auglýsing -