spot_img
HomeFréttirSigursælasta liðið og nýgræðingarnir

Sigursælasta liðið og nýgræðingarnir

09:00
{mosimage}

(Fyrirliðarnir Fannar Helgason t.v. og Fannar Ólafsson t.h.)

Saga KR og Stjörnunnar í karlaflokki er ansi ólík þegar kemur að bikarkeppni KKÍ en Garðbæingar eru nú að leika sinn fyrsta bikarúrslitaleik í sögu Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar en KR-ingar hafa orðið bikarmeistarar oftast allra liða eða 9 sinnum. Þrátt fyrir glæsta bikarsögu hefur KR ekki orðið bikarmeistari síðan árið 1991 og Vesturbæinga því farið að hungra eftir þessum titli. KR og Stjarnan mætast í Subwaybikarúrslitum karla í dag kl. 16:00 en hér að neðan verður aðeins kafað dýpra í málin.

Stjarnan komst í Subwaybikarúrslitin með 83-73 sigri á Njarðvíkingum í Ásgarði og fögnuðu þeir tímamótunum innilega. Þá komst KR áfram eftir magnaðan bikarslag við Grindavík þar sem rúmlega 1200 manns lögðu leið sína í DHL-Höllina.

KR trónir á toppi Iceland Express deildarinnar og unnu 16 deildarleiki í röð áður en Grindvíkingar stöðvuðu glæsta sigurgöngu þeirra í Röstinni síðasta mánudag. Stjarnan hefur verið á mikilli siglingu síðan Teitur Örlygsson tók við þjálfun liðsins og er Stjarnan í 6. sæti deildarinnar með 16 stig eftir að hafa verið í fallsæti á tímabili.

Þjálfarar liðanna þekkja Laugardalshöll en með ólíkri aðkomu. Teitur Örlygsson vann bikarinn margsinnis með Njarðvíkingum á sínum tíma en fer nú í Laugardalshöll í fyrsta sinn sem aðalþjálfari liðs. Benedikt Guðmundsson þjálfari KR hefur einu sinni orðið bikarmeistari en það var þegar hann stýrði Grindvíkingum til sigurs í keppninni árið 1998. Þá vann Grindavík sigur á KFÍ 95-71 þar sem Helgi Jónas Guðfinnsson gerði 19 stig fyrir gula og var næst stigahæstur í leiknum á eftir Darryl Wilson sem gerði 37 stig. Benedikt fór einnig með Fjölni í Höllina árið 2005 þar sem Grafarvogsbúar lágu 64-90 gegn Njarðvík og því er þetta í þriðja sinn sem Benedikt stýrir liði í bikarúrslitum í Laugardalshöll.

{mosimage}
(Justin Shouse)

Frá því að KR varð bikarmeistari árið 1991 hefur liðið þrívegis leikið til bikarúrslita en ávallt tapað. Fyrst árið 1997 þegar Hrannar Hólm þjálfaði KR, næst þegar Ingi Þór Steinþórsson núverandi aðstoðarþjálfari Benedikts fór með KR í Höllina árið 2000 og í þriðja sinn var Ingi aftur á ferðinni árið 2002 þegar KR tapaði gegn Njarðvík 86-79.

KR og Stjarnan hafa einu sinni mæst í Iceland Express deildinni í vetur þar sem um var að ræða hörkuleik í Ásgarði. KR hafði nauman 81-90 sigur í leiknum þar sem Jakob Örn Sigurðarson hjá KR var með 21 stig en Jovan Zdravevski skoraði 25 stig og tók 13 fráköst fyrir Stjörnuna.

Stjarnan hefur aldrei unnið sigur á KR í bikarkeppni eða úrvalsdeild en hér að neðan má sjá yfirlit yfir viðureignir liðanna:

Úrvalsdeild
Fim. 13.nóv.2008 19.15 Ásgarður  Stjarnan – KR 81-90 

Fös. 29.feb.2008 19.15 Ásgarður  Stjarnan – KR 105-106

Mán. 12.nóv.2007 19.15 DHL-Höllin  KR – Stjarnan 70-63 

Sun. 4.nóv.2001 20.00 DHL-Höllin  KR – Stjarnan 67-62 

Sun. 3.feb.2002 20.00 Ásgarður  Stjarnan – KR 67-93 

 

Kjörísbikarinn 2001

Sun. 8.okt.2000 20.00 DHL-Höllin  KR – Stjarnan 84-51

Takist KR að innbyrða sigur á Stjörnunni í dag og verða bikarmeistarar fagna þeir sínum tíunda bikarmeistaratitli en að öðrum kosti fer bikarinn í fyrsta sinn í sögunni til Garðabæjar ef Stjarnan vinnur. Við skulum nú aðeins líta á hvernig líkleg byrjunarlið eru í karlaleiknum í dag:

KR
Jakob Örn Sigurðarson
Jón Arnór Stefánsson
Helgi Magnússon
Jason Dourisseau
Fannar Ólafsson

Stjarnan

Justin Shouse
Ólafur J. Sigurðsson
Kjartan Atli Kjartansson
Jovan Zdravevski
Fannar Helgason

Miðherjabaráttan í leiknum verður ekki af verri endanum. Þar mætast fyrirliðarnir og nafnarnir Fannar Ólafsson og Fannar Helgason. Sá síðarnefndi varð einmitt bikarmeistari með ÍR árið 2007 með félaga sínum Ólafi J. Sigurðssyni sem einnig leikur með Stjörnunni. Líkast til munu þeir Jovan og Jason sjá um hvorn annan og þar mun Jovan eiga við ramman reip að draga á báðum endum vallarins enda Jason skæður sóknar- og varnarmaður. Ef KR ákveður að láta Helga Magnússon byrja inn á verður Stjarnan í miklum vandræðum nema ef ske kynni að Guðjón Lárusson yrði settur honum til höfuðs og myndi draga fram stórleik úr vasanum. Að öðrum kosti verður Kjartan á Helga til að byrja með og mun lenda í miklum vandræðum með hann í teignum.

{mosimage}
(Jón Arnór Stefánsson)

Félagarnir Jakob og Jón munu eiga í basli með Justin Shouse sem gefst aldrei upp, maðurinn er einskonar eilífðarvél. Justin má þó passa sig á villunum sem hafa oft gert honum lífið leitt. Þeir Justin og Ólafur fá svo það vandasama hlutverk að gæta Jakobs og Jóns Arnórs og eru fáir öfundsverðir af því hlutverki. Jón og Jakob munu bera uppi leik KR líkt og þeir hafa gert lungann úr vetrinum og því fróðlegt að sjá hvernig lágvaxinni bakvarðasveit Stjörnunnar mun ganga með landsliðsbakverðina.

Góða skemmtun í Laugardalshöll!

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -