spot_img
HomeFréttirSigurjón kveður á sunnudag

Sigurjón kveður á sunnudag

15:56

{mosimage}

(Sigurjón Örn Lárusson) 

Næsta sunnudag mun Sigurjón Örn Lárusson leika sinn síðasta leik fyrir körfuknattleikslið Stjörnunnar í ár þar sem hann hefur ákveðið að flytjast búferlum til Vestmannaeyja ásamt konu sinni og barni. Brotthvarf Sigurjóns er nokkur blóðtaka fyrir nýliða Stjörnunnar en Sigurjón hefur alla sína tíð leikið í Garðabænum og fór á kostum á síðustu leiktíð þegar Stjarnan tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni eftir oddaleik í úrslitakeppni 1. deildar gegn Valsmönnum. 

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en maður vinnur með það sem maður hefur og bæði liðsmenn Stjörnunnar og þjálfarinn hafa sýnt mér fullan skilning,“ sagði Sigurjón sem mun brátt hefja störf hjá Deloitte endurskoðunarstofu í Vestmannaeyjum. Sigurjón gerði 6,3 stig að meðaltali í leik með Stjörnunni á þessu tímabili ásamt því að taka alls 29 fráköst í sjö leikjum. Hann leikur kveðjuleik sinn með Stjörnunni á sunnudag þegar nýliðarnir taka á móti bikarmeisturum ÍR í Ásgarði kl. 19:15. 

„Stjarnan er og verður alltaf minn klúbbur og það er sárt að þurfa að yfirgefa strákana en ég hef fulla trú á þeim. Nýji útlendingurinn, Calvin Roland, kemur mjög vel út og frákastar vel. Þá hafa strákar á borð við Dimitar og Kjartan staðið sig mjög vel og andinn í liðinu er mjög góður og allir þessi strákar eru sterkir karakterar og munu standa sig vel án mín,“ sagði Sigurjón sem mun þó ekki leggja körfuboltaskóna á hilluna. Hann gerir fastlega ráð fyrir því að láta að sér kveða með ÍBV í 2. deildinni og verður Eyjamönnum vafalítið mikill liðsstyrkur. 

Frá þessu er greint í Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi í dag.

Fréttir
- Auglýsing -