spot_img
HomeFréttirSigurhátíð Blika slegið á frest í Hveragerði

Sigurhátíð Blika slegið á frest í Hveragerði

Hamar minnkaði muninn í einvígi liðsins gegn Breiðablik um sæti í Dominos deild karla að ári. Blikar voru sterkari aðilinn framan af leik en Hamar náði með liðsheild sinni að sigla framúr og ná í góðan sigur. Staðan eftir leik kvöldsins er 2-1 fyrir Breiðablik en vinna þarf þrjá leiki.

 

Gangur leiksins:

 

Það var greinilega mikið undir í Hveragerði í kvöld. Stemmning var mikil og spennustigið ansi nálægt hámarki. Heimamenn voru engan vegin tilbúnir fyrir spennuna né Chis Woods í byrjun. Breiðablik náði 12-0 forystu strax í byrjun og var Woods með átta stig. Í raun var Chris Woods sínum fyrrum félögum gríðarlega erfiður en hann var með 18 stig og 9 fráköst (7 sóknarfráköst) eftir sjö mínútna leik. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 17-30 fyrir Blikum.

 

Sóknarfráköst Blika léku Hamarsmenn grátt en í öllum fyrri hálfleik fékk liðið 17 slík eða fleiri sóknarfráköst en varnarfráköst. Hamar tókst að saxa aðeins á forystu Blika í öðrum leikhluta með aggresívari vörn og skotin fóru að detta. Staðan í hálfleik var 45-52 en Christopher Woods var með helming stiga Blika eða 26 talsins. 

 

Breiðablik bætti í forystuna í byrjun þriðja leikhluta og virtust vera á góðri leik með að ná íöruggan sigur. Heimamenn náðu hinsvegar betri takti þegar leið á leikhlutann. Með baráttu og vinnusemi tókst Hamri að minnka muninn í tvö stig fyrir fjórða leikhluta. 

 

Fjórði leikhluti var svo algjörlega eign Hamars. Liðinu tókst að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum í byrjun fjórða leikhluta og Blikar áttu fá svör á lokasprettinum. Að lokum náði Hamar í 103-95 sigur og frestaði að minnsta kosti þar með sigurhátíð Breiðabliks. 

 

 

Hetjan: 

 

Þrátt fyrir að tölfræðin sýni það kannski ekki þá á Oddur Ólafsson ansi mikið í þessum sigri. Hann bókstaflega öskraði sína menn af stað og til sigurs. Oddur sýndi algjöra leiðtogahæfni sína, spilaði frábæra vörn og endaði með fjögur stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Í +/- tölfræðinni er hann með 23 sem er lang mest í leiknum sem segir mikið um mikilvægi hans í þessum leik. 

 

Kjarninn: 

 

Blikarnir mættu ákveðnir til leiks og voru með leikinn í sínum höndum framan af leik. Liðið er skipað frábærum leikmönnum en það er eitthvað sem gekk ekki upp í kvöld á mikilvægum augnablikum. Blikar fóru jafn hátt niður og þeir fóru upp í þessum leik, stemmningin var geggjuð þegar liðið náði áhlaupum en það var eins og allur heimurinn væru á móti þeim þegar þeir fengu á sig áhlaup. Þá virtist vottur af agaleysi í leik þeirra í seinni hálfleik. Blikar eru samt enn einum leik frá Dominos deildinni og eru í fínni stöðu fyrir næsta leik í Smáranum.

 

Hamar fann hjartað í seinni hálfleik. Liðið barðist, setti allt í verkefnið og það skilaði sigri í dag. Ellefu leikmenn spila meira en fimm mínútur í leiknum og allir með tölu skila einhverju. Liðsheildin er öflug og hlutverkaskipanin virtist skýr í þessum leik. Þeir mega þó ekki við álíka byrjun og í leiknum í kvöld því einstaklingsgæðin eru klárlega meiri hjá Blikum. Nú þurfa Hvergerðingar að nýta stemmninguna sem þessi sigur færir þeim í að knýja fram oddaleik í Frystikistunni. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Davíð Eldur)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir og viðtöl / Davíð Eldur 

Fréttir
- Auglýsing -