spot_img
HomeFréttirSigurganga Vals í Subway deildinni komin í 10 leiki - Lögðu Grindavík...

Sigurganga Vals í Subway deildinni komin í 10 leiki – Lögðu Grindavík suður með sjó

Valur gerði góða ferð til Grindavíkur í kvöld þar sem liðið lagði heimakonur að velli með 20 stiga mun, 63-83.

Grindavík fór vel af stað í leiknum og var með frumkvæðið framan af. Valskonur virtust ekki alveg tilbúnar í byrjun en hleyptu heimakonum þó ekki langt frá sér. 

Svipað var uppi á teningnum í öðrum leikhluta; barátta Grindvíkinga var mikil og liðið sýndi oft og tíðum lipra takta og það býr margt í þessu liði – engin spurning. Liðið var tveimur stigum yfir í hálfleik, 33-31.

En Valsliðið var of stór biti til að kyngja – enda topplið deildarinnar. Í síðari hálfleik má segja að Valur hafi tekið öll völd og liðið sneri einfaldlega leiknum við sér í hag. Baráttan var þá góð hjá liðinu, sem var nánast meðvitundarlaust á löngum kafla í fyrri hálfleik. Sanngjarn sigur Vals því staðreynd en það verður ekki tekið af Grindavíkurliðinu að það sýndi hörkuleik í fyrri hálfleik og framan af þriðja leikhluta.

Hjá Val var það liðsheildin sem skilaði þessum sigri; breidd liðsins er góð og það svífur flottur andi yfir liðinu, enda er það nú búið að vinna tíu leiki í röð í deildinni og er ansi líklegt til að ná langt í deild og úrslitakeppni. Embla Kristínardóttir átti virkilega flotta innkomu í síðari hálfleik og að mati blaðamanns breytti hún einfaldlega leik liðsins með hörku baráttu og alvöru keppnisskapi; í framhaldinu fór liðið á flug og keyrði yfir lið Grindavíkur í síðari hálfleik.

Hjá Grindavík var Dani Rodriques virkilega góð; í svakalega góðu formi og það hlýtur að vera afar þreytandi og hreinlega erfitt að spila gegn svona rosalegu orkubúnti – ef Dani væri bíll væri hún sirka 2500 hestöfl. Frábært að hún sé aftur byrjuð að spila, geysilega skemmtilegur og góður leikmaður. Elma Dautovic er hörku leikmaður – sterk inn í teig og svo getur hún skotið vel fyrir utan. Annars var sómi að Grindavíkurliðinu í þessum leik; það var við ramman reip að draga en liðið gaf sig allt í leikinn en andstæðingurinn að þessu sinni var aðeins of sterkur. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór / Væntanlegt)

https://www.karfan.is/2023/02/dagbjort-eftir-tiunda-sigur-vals-i-rod-markmidid-ad-na-ad-landa-deildarmeistaratitlinum/
https://www.karfan.is/2023/02/thorleifur-eftir-tapid-i-kvold-thegar-valur-kemst-a-skrid-er-erfitt-ad-stoppa-lidid/
Fréttir
- Auglýsing -