Sigurganga KR hélt áfram á Flúðum

Hrunamenn tóku á móti KR-ingum í 1. deild karla í kvöld. Hrunamenn og nærsveitungar mættu vel á leikinn og eins fylgdi gestunum nokkuð fjölmenn stuðningssveit. Það var hörkustemmning í Gróðurhúsinu á Flúðum og liðin buðu upp á prýðilega skemmtun. Leikurinn var svo sem ekki jafn eða spennandi nema fyrri hluta 1. fjórðungs því KR hélt öruggri forystu upp frá því en hvorki Hrunamenn né KR-ingar hættu nokkru sinni að berjast og það var full ákefð í leik beggja liða allt til loka leiksins. Leiknum lauk með sigri gestanna úr Reykjavík 81-104.

Breidd KR-liðsins er mikil. Allir leikmenn liðsins hafa leikið í úrvalsdeild. Liðið er blanda ungra leikmanna og leikmanna sem hafa nokkra reynslu. Jakob þjálfari getur skipt leikmönnum inn á völlinn án þess að liðið veikist. Sóknarleik KR var í upphafi leiksins stýrt af Veigari Áka Hlynssyni en þegar líða tók á leikinn tók Adama Darbo við því kefli. Adama er yfirvegaður á boltanum og hefur ágæta stjórn á því hvenær er við hæfi að keyra hraða leiksins upp og hvenær hæfir betur að róa leikinn niður. Reynsla Odds Rúnars Kristjánssonar er KR liðinu mikilvæg. Hann er áræðinn og gengur á undan með góðu fordæmi í flestum aðgerðum bæði í vörn og sókn. 

Varnarleikur KR liðsins á hálfum velli er ekki fullkominn, a.m.k. ekki enn sem komið er, hvað sem verður þegar líður á tímabilið. Hins vegar beitir liðið breytilegum útfærslum pressuvarnarleiks og í þeim aðgerðum er liðið samstíga og kröftugt. Hrunamenn leystu pressuna yfirleitt en mikil orka fór í það sem hefur vafalítið komið niður á sóknarleik liðsins. 


Eyþór Orri bar boltann upp fyrir Hrunamenn. Eyþór skilaði 16 stigum fyrir Hrunamenn í kvöld, átti að vanda margar fallegar stoðsendingar og spilaði hörkuvörn. Friðrik Heiðar lék af miklum krafti á báðum endum vallarins og Hringur Karlsson átti skínandi leik, einkum í seinni hálfleik þar sem hann m.a. setti niður þrjár þriggja stiga körfur á stuttum tíma. Atkvæðamestir heimamanna voru þó erlendu atvinnumennirnir, Aleksi Liukko og Chance Hunter. Aleksi fékk 23 fráköst skráð á leikskýrsluna en þau voru líklega fleiri og Chance skoraði 27 stig.

Hjá KR var Oddur Rúnar stigahæstur með 16 stig. Hann lék mjög vel fyrir KR í kvöld. Hann var þó ekki einn um það því 6 aðrir leikmenn skoruðu 10 stig eða meira og 11 leikmenn liðsins skoruðu í leiknum. Hjá Hrunamönnum náðu aðeins 6 leikmenn að skora.

Í næstu viku mæta Hrunamenn nágrönnum sínum á Selfossi en KR fær Þrótt í heimsókn. 

Mynd / Brigitte Brugger