spot_img
HomeFréttirSigurganga KR heldur áfram

Sigurganga KR heldur áfram

Toppslagur fór fram í DHL-höllinni í kvöld þegar KR tók á Fjölni í 1. deild kvenna. Fyrir leikinn var KR ósigrað í deildinni og sat á toppi hennar með 34 stig en Fjölnir var í 2. sæti með 26 stig. Eftir jafnan fyrri hálfleik reyndist KR vera sterkari aðilinn í þeim síðari og sigruðu heimakonur með 21 stigi, 87-66.

Viðsnúningurinn
Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að hafa forystu voru þreytumerki farin að sjást á Fjölni í byrjun seinni hálfleiks. Þær nýttu skot sín illa og skoruðu ekki nema 13 stig í þriðja leikhluta. Á sama tíma hélt KR áfram að leika af sama krafti og áður og juku þær forystuna jafnt og þétt. KR leiddi með 15 stigum fyrir lokafjórðunginn og ljóst var að róðurinn yrði þungur fyrir Fjölni ef þær ætluðu sér að halda heim með tvö stig í fararteskinu.

KR hélt áfram þar sem frá var horfið í upphafi fjórða leikhluta og náðu 21 stigs forskoti þegar skammt var liðið á hann. Þá kom gott áhlaup frá Fjölni þar sem þær skoruðu 9 stig í röð en heimakonur voru ákveðnar í því að gefa gestunum ekki færi á sigrinum og svöruðu með 11-0 áhlaupi. KR landaði að lokum 18. sigrinum í deildinni í vetur, 87-66.

Framlagshæstu leikmenn
Alexandra Petersen var gríðarlega öflug í liði KR í kvöld, skoraði 28 stig auk þess að taka 10 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Þá skoraði Ástrós Lena Ægisdóttir 14 stig og tók 4 fráköst fyrir KR, Perla Jóhannsdóttir bætti við 12 stigum auk þess að taka 4 fráköst og gefa 9 stoðsendingar og Eygló Kristín Óskarsdóttir tók 10 fráköst og skoraði 4 stig.

Hjá Fjölni var McCalle Feller atkvæðamest með 24 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar, Margrét Eiríksdóttir skoraði 9 stig og tók 4 fráköst og Erla Sif Kristinsdóttir og Margrét Ósk Einarsdóttir bættu við 8 stigum hvor. Þá var Aníka Linda Hjálmarsdóttir frákastahæst Fjölnis með 7 fráköst.

Kjarninn
KR rígheldur í toppsæti 1. deildar kvenna og heldur áfram sigurgöngu sinni sem telur nú 18 sigurleiki í röð í deildinni. Fjölnir situr sem fyrr í 2. sæti deildarinnar með 26 stig og hafa þær 6 stiga forskot á Þór Akureyri sem situr í 3. sæti. Á laugardaginn heldur KR til Akureyrar þar sem þær mæta Þór í Síðuskóla en Fjölnir heldur í Hertz Hellinn þar sem ÍR tekur á móti þeim.

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik
 

Umfjöllun og myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir

Viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -