spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaSigurganga Keflavíkur hélt áfram í Síkinu - Komnir með þægilega 2-0 forystu...

Sigurganga Keflavíkur hélt áfram í Síkinu – Komnir með þægilega 2-0 forystu gegn Tindastól

Tindastóll tók á móti Keflavík í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Dominos deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar stóðu ágætlega í deildarmeisturunum í fyrsta leiknum í Keflavík þannig að áhorfendur í Síkinu vonuðust eftir hörkuleik í kvöld.

Leikurinn byrjaði jafnt og skemmtilega, gestirnir komust í 0-4 en þristar frá Axel og Jaka komu Stólum yfir en Calvin Burks jafnaði, 4 mínútur liðnar. Antanas Udras, sem hafði misst af fyrri leiknum, kom þá inn fyrir Axel og næstu 3 mínútur voru Stólum erfiðar og Keflavík gekk á lagið og náðu 10-0 kafla áður en Flenard minnkaði muninn. Staðan 11-19 að loknum fyrsta leikhluta og kunnuglegt mynstur farið að sjást hjá Tindastól, þeir spiluðu fína vörn en sóknin var ráðleysisleg. Gestirnir úr Keflavík héldu fínum tökum á leiknum í öðrum leikhluta og juku við muninn og enn var það sóknarleikur heimamanna sem var vandræðalegur gegn sterkri vörn gestanna.

Keflavík skoraði fyrstu 7 stig seinni hálfleiks og náðu 17 stiga forystu og héldu þá margir að leikurinn væri einfaldlega búinn og að gestirnir myndu valta yfir Stólana. En heimamenn bitu í skjaldarrendur og fóru hægt og rólega að naga muninn niður og munaði þar mikið um að Udras fór að hitta eins og berserkur, setti 3 þrista og körfu að auki, 11 stig í röð og aðrir í liðinu efldust við þetta. Þegar tæp hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta jafnaði Tomsick með sniðskoti og mikil stemning komin í Síkið.

Viðar kom heimamönnum svo 3 stigum yfir með þristi úr horninu í byrjun fjórða leikhluta en gestirnir svöruðu og komust 4 stigum yfir. Aftur kom áhlaup hjá heimamönnum og Flenard jafnaði með víti eftir þrist frá Axel, staðan 66-66. Liðin skiptust svo á að skora og þegar rétt rúma 4 mínútur voru eftir var enn allt í járnum 70-70. Þá virtist sem bensínið væri búið hjá heimamönnum, Flenard skoraði þegar rúmar 3 mínútur voru eftir og minnkaði muninn í 3 stig 72-75 en það sem eftir lifði leiks skoraði Tindastóll ekki körfu utan af velli, eina viðbótin voru 2 víti frá Tomsick en gestirnir settu aftur á móti 11 stig í viðbót og lönduðu að lokum nokkuð öruggum sigri.

Hjá heimamönnum var Flenard Whitfield stigahæstur með 19 stig og reif niður 10 fráköst að auki. Tomsick var með flesta framlagspunkta eða 20 eftir 14 stig og 11 stoðsendingar en segja má að hann og Pétur Rúnar hafi haft hlutverkaskipti frá fyrsta leiknum því í kvöld var Pétur ískaldur, hitti ekki úr skoti og kom ekki stigi á töfluna. Hjá gestunum átti Hörður Axel frábæran leik, skilaði 29 stigum og 11 stoðsendingum. Deane Williams bætti 26 stigum við en Milka var óvenju rólegur í stigaskorun.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -