16:08
{mosimage}
(Sigurður Ingimundarson)
Íslenska karlalandsliðið heldur í fyrramálið út til Litháen og mætir heimamönnum í tveimur æfingaleikjum dagana 13. og 15. júlí næstkomandi. Litháen er í 5. sæti á styrkleikalista FIBA og því bíður íslenska liðsins ærinn starfi. Litháar leika aðeins fjóra æfingaleiki fyrir Ólympíuleikana og þar af eru tveir þeirra gegn Íslendingum. Jón Arnór Stefánsson leikmaður Lottomatica Roma á Ítalíu mun ekki fara út með liðinu en Finnur Magnússon hefur verið valinn í hans stað.
Ástæðan fyrir því að Jón fari ekki með til Litháen er sú að samningamál hans eru ófrágengin að svo stöddu. Bræðurnir Finnur og Helgi Magnússynir munu því snúa saman bökum í íslensku landsliðstreyjunni næstu daga en þetta verður í fyrsta skipti sem þeir leika A-landsliðsleik saman.
„Ég er sáttur við hópinn okkar, þetta eru reyndar bara æfingaleikir og þeir eru ekki eins mikilvægir fyrir okkur og þeir eru fyrir Litháen. Þeir spila ekki nema fjóra æfingaleiki, tvo gegn okkur og mæta svo Bandaríkjamönnum næst,“ sagði Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari í samtali við Karfan.is í dag.
„Maður spilar vart við betri lið en Litháen og þetta er klárlega eitt af stærri verkefnunum okkar svo það verður líf og fjör. Við getum vel spilað við þá, ég efa það ekki eina sekúndu því við erum með mjög gott lið og getum spila við alla. Það vita það allir að hæðin hrjáir okkur í dag en við vælum ekki yfir því. Eins og einn góður maður sagði eitt sinn; „Ef maður er minni þá spilar maður stærra.“
Sigurður segir ferðina til Litháen vera góðan prófstein fyrir landsliðið. „Þarna kemur í ljós hvað sé spunnið í íslenska liðið, við munum sjá hvað vantar upp á og það verður mikilvæg reynsla í þessum leikjum því í haust mætum við Svartfellingum sem eru klárlega á styrkleika við Litháen,“ sagði Sigurður en Svartfellingar verða með Íslendingum í Evrópukeppni B-þjóða þegar riðlakeppnin hefst í haust.
„Svartfellingar eru eiginlega helmingurinn af gamla serbneska liðinu, þeir eru sjálfir með það á hreinu að þeir vinni riðilinn og það er kannski eðlileg pæling hjá þeim þegar horft er á mannskapinn þeirra,“ sagði Sigurður sem þvertekur fyrir að íslenska liðið sé á leið til Litháen til þess að verða einhverjir áhorfendur næstu daga.
„Við förum ekkert til að horfa á! Það verður bara allt sett í botn og við förum ekki alla þessa leið nema til þess að reyna að vinna þá. Ég hef sjálfur á sínum tíma leikið landsleik gegn Litháen og þann landsleik vann Ísland. Ég man ekki hvenær það var en þeir eru ekki ósigrandi, langt í frá,“ sagði Sigurður ákveðinn.
Litháen er í 5. sæti á styrkleikalista FIBA og skartar mörgum stjörnum og ljóst að þetta verkefni er með þeim stærri sem íslenska landsliðið hefur tekið sér fyrir hendur.
[email protected]
Mynd: [email protected]