Njarðvíkingar gerðu góða ferð í Garðabæ í kvöld og komust í 1-0 í einvíginu gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Karfan.is ræddi við Sigurð Ingimundarson þjálfara Njarðvíkinga eftir leikinn sem segir byrjun sinna manna á úrslitakeppninni vera fína.
,,Þetta eru varnarsinnuð lið og voru bæði að spila fínustu vörn í vetur, við fengum á okkur fæst stig í deildinni og Stjarnan var ekki langt þar undan svo það var ekki mikið frítt í kvöld,“ sagði Sigurður og bætti við að grænir væru einbeittir í sínum varnarleik um þessar mundir.
,,Við erum uppteknir af því að spila góða og skemmtilega vörn og það gekk vel í kvöld. Við vorum að mæta góðu liði og erum því ánægðir með okkar árangur hér. Stjarnan er með heilsteypt og flott lið og tapa ekki oft á heimavelli, þetta var því fín byrjun hjá okkur en svo er það bara búið,“ sagði Sigurður til að árétta að það væri aðeins einn leikur að baki.
Magnús Þór Gunnarsson fékk að spreyta sig í kvöld en hann hefur verið fjarverandi sökum meiðsla og bjóst sjálfur ekki við því að mæta fyrr en í leik liðanna í Ljónagryfjunni. ,,Hann var spenntur fyrir því að fá að spreyta sig í kvöld, hann komst óskaddaður frá þessu og vonandi gerist bara meira í næsta leik,“ sagði Sigurður en hvað ber mánudagurinn í skauti sér?
,,Ég hef fína tilfinningu fyrir næsta leik, þessi leikur í kvöld hjálpar okkur ekki þar og síðustu tveir leikir í Njarðvík voru ekkert sérstakir en Njarðvíkingar eru vanir yfir höfuð að spila vel í Ljónagryfjunni, það er bara svoleiðis.“



