spot_img
HomeFréttirSigurður Þór: Haukar vonandi komnir upp þegar ég kem til baka

Sigurður Þór: Haukar vonandi komnir upp þegar ég kem til baka

07:00

{mosimage}
(Sigurður Þór var einn stigahæsti Íslendingurinn í 1. deild í vetur.
 Hann var með 15 stig í leik)

Haukamaðurinn Sigurður Þór Einarsson leikur ekki með Haukum á næsta vetri eins og var greint frá í vikunni. Hann mun setjast á skólabekk í Danaríki en hann hefur fengið inngöngu við danska skólann Vidusbering sem er í Horsens á Jótlandi. Sigurður sagði í samtali við Karfan.is að hann stefni á að spila körfubolta næsta vetur en námið mun þó vera í forgangi.

,,Ég ætla að reyna að spila,” sagði Sigurður Þór þegar Karfan.is spurði hann um næsta tímabil. ,,Þarna í Horsens þar sem ég verð eru allavega tvö lið að ég held, en gamli liðsfélagi minn úr Njarðvík, Halldór Karlsson, er að spila með öðru liðinu. Ég held að þeir hafi meira að segja verið að vinna sig upp um deild,” sagð Sigurður sem er að fara í nám í byggingarfræði. ,,Ég er lærður pípari og hef starfað sem slíkur undanfarin ár. Mig langaði að læra meira og ákvað að stökka frekar en hrökkva þegar tækifærið gafst.”

Sigurður hefur verið lykilmaður hjá Haukum undanfarin tímabil og var t.a.m. fyrirliði ásamt Marel Guðlaugssyni síðastliðið tímabil. Hann var stigahæsti leikmaður liðsins í vetur og fór fyrir ungu liði Hauka. Sigurður sagði að hann muni sakna Haukanna og vildi gera meira til þess að koma liðinu upp um deild. ,,Ég vildi vera einn af þeim sem myndi hjálpa Haukum að komast aftur upp í úrvalsdeildina þar sem félagið á heima. Ég bý í Hafnarfirði og er orðinn hændur Haukunum og ég tel mig nú Hafnfirðing eftir öll þessi ár. Námið er í þrjú og hálft ár þarna úti og þegar ég kem heim á ný verða Haukarnir vonandi komnir í úrvalsdeild og þá get ég kannski lagt eitthavð af mörkum til félagsins á ný.”

{mosimage}
(Sigurður var valinn mikilvægasti leikmaður Hauka á tímabilinu á lokahófi félagsins)

Tímabilið 2003-04 var fyrsta tímabil Sigurður hjá Haukum og skoraði hann 16 stig í fyrsta leiknum. Síðan þá hefur hann leikið vel yfir 100 leiki fyrir félagið. En hvernig hefur tíminn hjá Haukum verið? Hann hefur reynst mér vel. Ég hef orðið betri körfuboltamaður og kynnst frábærum einstaklingum hjá félaginu. Ég á eftir að hugsa til liðsins og fylgjast með þeim eins mikið og ég get og það er alltaf erfitt að yfirgefa svona góðan félagsskap. En ég mun örugglega koma í heimsókn næsta vetur og ef tækifæri gefst þá mun ég að sjálfsögðu kíkja á strákanna.”

Sigurður viðurkenndi þó að hann vissi ekki mikið um danskan körfubolta en myndi kynna sér hann betur nú þegar hann væri á leið til Danmerkur. ,,Ég hef heyrt að danski körfuboltinn á að vera svipaður og á Íslandi. Það hafa nokkrir sterkir danskir leikmenn spilað hér á Íslandi og spjarað sig ágætlega. Adama Darboe er einn af betri leikmönnum Iceland Express-deildarinnar þannig að ég býst við að það sé spilaður ágætis körfubolti í Danmörku. Svo verður maður að vera duglegur að æfa þar sem ég verð kominn í land ölsins og þarf því að passa línurnar. Ekki vil ég enda með of stóran vömb þegar ég kem aftur á klakann,” sagði Sigurður í léttum tón.

[email protected]

Myndir: [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -